Fótbolti

Aldrei spilað við „klikkaðri“ aðstæður en í Kópavogi og afmælisbarnið fékk blástur

Sindri Sverrisson skrifar
Liðsfélagarnir reyndu að blása hita í afmælisbarnið Esther González eftir leik. Eins og sjá má kyngdi niður snjó á meðan á leiknum stóð.
Liðsfélagarnir reyndu að blása hita í afmælisbarnið Esther González eftir leik. Eins og sjá má kyngdi niður snjó á meðan á leiknum stóð. Instagram/@asllani9 og Vísir/Vilhelm

Sænska knattspyrnustjarnan Kosovare Asllani virtist njóta sín vel á Kópavogsvelli í fyrrakvöld en hún segir aðstæður þar þó hafa verið þær „klikkuðustu og köldustu“ sem hún hafi prófað á sínum ferli.

Þó að Rangæingurinn Karitas Tómasdóttir hafi spilað hanskalaus í stuttermabol í snjóbylnum í Kópavogi þá virtist mörgum kalt þegar leikur Breiðabliks og Real Madrid fór fram í Meistaradeildinni í fótbolta.

Það er sjaldgæft að keppnisleikir í fótbolta fari fram á Íslandi í desember en vegna nýs fyrirkomulags í Meistaradeild kvenna, og sterkrar stöðu úrvalsdeildar kvenna í evrópskum samanburði, má búast við fleiri desemberleikjum á næstu árum.

Í fyrrakvöld fór að kyngja niður snjó áður en leikur Breiðabliks og Real hófst klukkan 20. Vallarstarfsmenn gerðu sitt til að moka snjó af vellinum fyrir leik og í hálfleik, en snjókoman hafði sín áhrif á leikinn og spila þurfti með appelsínugulan bolta.

Asllani skoraði samt sem áður tvö mörk í 3-0 sigri Real. Á Instagram eftir leik skrifaði hún:

„Stolt af frammistöðu liðsins í kvöld í klikkuðustu og köldustu aðstæðum sem ég hef nokkru sinni spilað í. 3-0 og komin áfram í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar. Vel gert lið.“

Þess má geta að Asllani er 32 ára og hefur spilað með liðum í Svíþjóð, Bandaríkjunum, Frakklandi, Englandi og nú Spáni, auk þess að leika vel á annað hundrað landsleikja fyrir Svíþjóð.

Liðsfélagi Asllani, Esther González, fagnaði 28 ára afmæli í gær og á eflaust eftir að muna eftir þessum afmælisdegi. Eins og sjá má á myndinni hér efst reyndu vinkonur hennar að hlýja henni eftir leik með notkun hárblásara inni í búningsklefa, enda sú spænska enn óvanari kuldanum en Asllani.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×