Fyrir alríkisdómi í Washington-borg sagðist Coronel harma þann skaða sem hún kynni að hafa valdið og bað dómarann um að fyrirgefa sér.
Saksóknarar fóru fram á fjögurra ára fangelsi yfir Coronel en sátt sem hún gerði við þá fól í sér að hún félst á að láta af hendi eina og hálfa milljón dollara, jafnvirði tæpra 196 milljóna króna. Coronel játaði sig seka um samsæri um dreifingu fíkniefna, peningaþvætti og viðskipti við Sinaloa-hringinn.
Gekkst hún meðal annars við því að hafa verið sendiboði á milli Guzmán og Sinaloa-gengisins þegar foringinn var í fangelsi í Mexíkó árið 2014. Þannig hjálpaði hún eiginmanni sínum að sleppa úr fangelsi í gegnum neðanjarðargöng sem glæpagengið lét grafa að klefa hans.
Guzmán var handtekinn aftur í janúar árið 2016 og framseldur til Bandaríkjanna ári síðar. Hann var sakfelldur fyrir fíkniefnasmygl, samsæri, mannrán, morð og fleiri glæpi og hlaut fyrir lífstíðarfangelsi í febrúar árið 2019.
Giftist Guzmán ung að árum
Coronel er 32 ára gömul fyrrverandi fegurðardís sem fæddist í Bandaríkjunum. Hún giftist glæpaforingjanum Guzmán þegar hún var átján ára gömul. Hún var handtekin við komuna til Bandaríkjanna í febrúar.
Lögmaður Coronel sagði að hún hefði blandast inn í heim fíkniefnasmygls þegar hún var enn undir lögaldri og að hún verðskuldaði náð dómara, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.
Saksóknarar sögðu einnig að þó að afleiðingar gjörð Coronel hafi verið miklar hafi hlutur hennar í glæpum verið takmarkaður. Hún hafi fyrst og fremst beitt sér í þágu eiginmanns síns. Eftir að hún var handtekin hafi húin fljótt axlað ábyrgð á glæpum sínum.
Dómarinn sagðist hafa tekið tillit til aðstæðna Coronel og sögu þegar hann ákvað refsingu hennar, þar á meðal að hún væri nú ein með tvíbura þeirra Guzmán þar sem hann afplánar lífstíðardóm.