Íslenska heimildarmyndin hans Á móti straumnum hlaut nú rétt í þessu verðlaunin Best Nordic Film á Nordic Adventure Film Festival, NAFF.
„Þetta er náttúrulega fyrst og fremst heiður og viðurkenning, að maður sé að gera eitthvað rétt,“ segir Óskar Páll stoltur.
„Ég er sérstaklega þakklátur Veigu fyrir að hleypa mér svona nálægt sér með myndavélarnar, einnig Kristínu Ólafsdóttur og Pétri Einarssyni fyrir að taka að sér framleiðsluna og svo öllum þeim stóra hóp sem kom að gerð myndarinnar,“ segir Óskar Páll um verðlaunin.
„Þau eiga öll heiður skilið.“

Innri barátta um líf eða dauða
Á móti straumnum, sem erlendis er kynnt sem Against the current, er táknræn og áhrifarík mynd um transkonuna Veigu Grétarsdóttur Myndin segir frá lífshlaupi Veigu, kynleiðréttingu og ótrúlegu ferðalagi hennar á kajak í kringum Ísland í þrjá mánuði.

Veiga var fyrsta manneskjan í heiminum til að róa á kajak 2.100 kílómetra í kringum um landið rangsælis, á móti straumnum. Samhliða tekst hún á við sjálfa sig í kynleiðréttingarferlinu og gefur myndin innsýn í innri baráttu Veigu um líf eða dauða hvort sem er í lífinu sjálfu eða ein úti á kajak.
„Það er gaman hvað myndin er að fara víða því þetta er boðskapur sem á erindi við mjög marga,“ segir Óskar Páll.
„Það hefur komið í ljós eftir að við byrjuðum að sýna myndina. Við erum búin að fá viðbrögð frá alls konar fólki, til dæmis mjög mörgum sem tengjast transfólki. Auðvitað líka frá transfólki líka.“

Óskari Páli þótti til dæmis einstaklega vænt um það að fá að hitta mann á dögunum sem myndin hreyfði mikið við.
„Það var afi sem á trans afabarn. Hann sagði að eftir að hann horfði á myndina þá allt í einu skildi hann þetta svo miklu betur. Hann sagði mér,
„Þetta á eftir að breyta því hvernig ég sé þessi mál algjörlega, ég sé barnið með allt öðrum augum eftir að ég sá myndina.“
Það er voðalega gaman að heyra svona sögur, þá er eitthvað gott að koma út úr þessu.“

„Gimsteinn“ um hugrakka konu
Aðstandendur myndarinnar gátu ekki verið viðstaddir verðlaunaafhendinguna í Kaupmannahöfn í kvöld.
„Við gátum ekki farið vegna Covid og fleiri ástæðna,“ útskýrir Óskar Páll. Hann sendi inn myndbandsupptöku af þakkarræðu sem spiluð var þegar myndin vann verðlaunin.

Heimildarmyndin var frumsýnd hér á landi í Bíó Paradís á RIFF hátíðinni árið 2020 og var einnig sýnd á Stöð 2. Enn er hægt að leigja myndina og horfa á hana í gegnum Stöð 2+ efnisveituna. Í júní á þessu ári fór hún svo í sýningar í kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum.
„Það er mjög sjaldgæft að heimildarmyndir fari í svona dreifingu eins og þessi mynd fékk í úti í Bandaríkjunum. Það var því alveg gríðarlegur heiður og margt gott sem kom út úr því. Það var líka gaman að sjá dómana sem komu frá Bandaríkjunum, þeir komu á óvart.“
Í Los Angeles Times var myndinni lýst sem „gimsteini“ og gullfallegri á svo margan hátt. „Myndirnar á Íslandi eru hrífandi,“ segir meðal annars í dómnum. Veiga er sögð einstök og hugrökk og Óskari er hrósað fyrir hvernig hann heldur stjórn á sögunni í gegnum myndina.

Myndin hefur nú þegar skapað honum mörg ný tækifæri.
„Það sem hefur líka komið í ljós er að maður er að fá tilboð frá erlendum kvikmyndagerðarmönnum og fólki í bransanum um verkefni.“

Mikilvægt að hafa umræðuna opna
Myndin var framleidd af Klikk Productions og Pétri Einarssyni. Klikk Productions var stofnað árið 2002 af Kristínu Ólafsdóttur leikstjóra og framleiðanda og hefur það að markmiði að framleiða myndir tengdar mannúðarmálum, einkum sem snúa að réttindum barna og kvenna. Óskar Páll vann í nokkur ár að myndinni og segir viðfangsefnið gríðarlega mikilvægt.
„Eins og við vitum þá er fólk að þjást svo víða, sem er í þessari stöðu. Unga fólkið og unglingarnir líka. Ég veit að það var sjálfsvíg fyrir nokkrum vikum síðan, trans unglingur.“

Óskar Páll segir því mikilvægt að hafa þessa umræðu opna.
„Veiga, verandi svona hrein og bein eins og hún er, hún nær svo auðveldlega til fólks. Hún nær fólki með sér og það er mjög greinilegt hvað umræðan er jákvæð í kringum hana. Það er algjörlega frábært.“
Hann segir það líka greinilegt að þetta er að skila einhverju, miðað við þann fjölda skilaboða sem þau hafa fengið síðan myndin fór í sýningu hér á landi og erlendis.
„Það er gaman að sjá hvað þessi mynd er að gera.“

Sýnishorn úr myndinni Á móti straumnum má sjá hér fyrir neðan en hún er einnig aðgengileg á Stöð 2+ efnisveitunni.