Guðjón Guðmundsson hitti að þessu sinni eina rakarann í Olís deild karla í handbolta. Hann vinnur í Stúdío 110 í Reykjavík og viðskiptavinurinn var ekki af verri endanum þegar Gaupi mætti á svæðið.
„Gunnar Malmquist Þórsson hjá Aftureldingu hefur um árabil verið einn mesti naglinn í Olís deild karla. Með handboltanum mundar hann skærin á hverjum degi. Kúnninn að þessu sinni er besti leikmaður Íslandsmótsins á síðustu leiktíð; Árni Bragi Eyjólfsson,“ sagði Guðjón Guðmundsson.
![](https://www.visir.is/i/FB812C1EBAF6E0763407FB675EB86D8F79CC92A4A270B3830CAF5F029F7297CD_390x0.jpg)
„Gunnar, hérna ertu að klippa alla daga með handboltanum,“ sagði Gaupi í upphafi viðtalsins.
„Það er ekki auðvelt því það tekur stundum á skrokkinn. Þess vegna þarf maður líka að vera í góðu standi,“ sagði Gunnar Malmquist Þórsson.
„Ég vil meina að fótboltamenn eru oftast betur klipptir en handboltamenn. Það er bara áskorun á handboltamenn að koma oftar í klippingu. Það er alltaf verið að tala um að handboltaklippingin sé síða hárið með snúðinn. Svona Róberts Aron klipping en við viljum reyna að eyða því í burtu,“ sagði Gunnar.
Gaupi forvitnaðist um Bergvin Þór Gíslason hjá Aftureldingu sem honum þykir ekki vera vel klipptur.
„Ég er búinn að vera að vinna í því að fá hann í burtu frá þessu síða hári en það gengur erfiðlega þessa dagana. Hann mætti í síðasta leik með fastar fléttur. Það er ekki mjög vinsælt hjá mér alla vega. Hann er samt alltaf flottur hann Bergvin enda líka Þórsari,“ sagði Gunnar.
„Það eru allskonar íþróttamenn sem mæta hérna. Það eru handboltamenn, fótboltamenn, bardagamenn og allur katalógurinn,“ sagði Gunnar.
Það má sjá alla heimsókn Gaupa hér fyrir neðan.