Í fréttum Stöðvar 2 lýsti hún viðbrögðum sínum þegar jarðskjálfti af stærðinni 5,2 með upptök í Vatnafjöllum, austan Heklu, reið yfir Suðurland laust fyrir klukkan hálf tvö í dag.
Þeir sveitabæir sem næstir eru upptökum skjálftans eru sennilega Heklubæirnir Selsund og Næfurholt sem og Keldur.

„Upptökin á þessum skjálfta eru kannski bara fimmtán kílómetra hérna frá bænum. Og ég er efsti bær,“ sagði Drífa.
„Ég sat bara inni í stofu og var að prjóna og allt í einu var bara eins og stórt högg undir sófann og allt hristist og skalf.“
-En hrundi ekkert úr hillum?

„Nei, nei. Það gerði það nú ekki. En það skalf mikið.
En þetta er ekki nærri því eins og var árið 2000 þegar skjálftinn var yfir sex og ég var niðri í Hellu í nýja íþróttahúsinu. Þetta var ekkert í líkingu við það. Þetta var miklu, miklu minna,“ svaraði Drífa.
Hér má sjá beina útsendingu Stöðvar 2 frá Hvolsvelli: