Bannið hefur verið í gildi frá því snemma árs 2020, og var sett í valdatíð Donalds Trump fyrrverandi forseta. Bannið náði til yfir 30 ríkja, meðal annars Bretlands, Kína og Evrópusambandsríkja.
Með afléttingu bannsins munu ferðalangar sem hafa verið fullbólusettir með bóluefnum sem samþykkt eru af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) geta ferðast til Bandaríkjanna, þó að nánari skilyrðum uppfylltum.
Fyrir brottför þurfa ferðamenn að sýna fram á bólusetningu og neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku, en þeim ber ekki að fara í sóttkví við komuna til Bandaríkjanna.
Eftirspurnin mikil
Guardian hefur eftir flugfélaginu Virgin Atlantic að bókunum til Bandaríkjanna hafi fjölgað gríðarlega, eftir að ljóst varð að banninu yrði aflétt. Þá er haft eftir forstjóra flugfélagsins Delta að búast megi við gríðarlegum fjölda ferðamanna til Bandaríkjanna.
Þá telji sérfræðingar í ferðamannabransanum að bannið, sem senn verður aflétt, hafi skapað uppsafnaða eftirspurn eftir ferðalögum til Bandaríkjanna sem kunni að vara næstu árin.