Formenn ríkisstjórnarflokkanna þriggja héldu stjórnarmyndunarviðræðum sínum áfram í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í dag, en viðræður þeirra hafa nú staðið yfir í sex vikur samfleytt. Fjórar vikur eru í að Alþingi eigi, lögum samkvæmt, að koma saman - óháð því hvort búið verði að mynda nýja ríkisstjórn eða ekki.
„Ég myndi segja að við séum búin að fara yfir alla helstu málaflokka. Við erum búin að kafa á dýptina í ýmsum málum þar sem við höfum þurft að greiða úr einhverjum flækjum,” segir Katrín Jakobsdóttir.
„Við erum komin á þann stað að við erum byrjuð að setja niður texta þannig að þessu hefur miðað ágætlega og ég myndi segja að við sjáum fram á það að geta lokið ritun stjórnarsáttmála, án þess að fara út í tímasetningar, en það hyllir undir það í lok þessarar viku.”
Hins vegar þurfi það að taka mið af störfum undirbúningskjörbréfanefndar, sem hefur upplýst um að hún mun starfa út næstu viku, þar sem reynt verður að varpa ljósi á talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi.
„Ég veit auðvitað ekki hvaða niðurstöðu þeir munu komast að en það er að minnsta kosti teorískur möguleiki á að það veðri boðað til uppkosningar. Og síðan eru aðrir möguleikar en á meðan það liggur ekki fyrir þá er auðvitað eðlilegt að myndun ríkisstjórnar taki mið af niðurstöðum hennar.”
Engu að síður sé stjórnarsáttmálinn nú í vinnslu en verkaskipting hefur ekki verið rædd. „Við munum ekki ræða verkaskiptingu fyrr en við erum komin með þennan málefnalega grunn.”