Þetta kemur fram í pistli sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir birti á covid.is í dag. Fram kom fyrr í dag að 91 hafi greinst smitaður af veirunni innanlands í gær og þrír á landamærum.
Samhliða fjölgun smita hefur þeim fjölgað sem lagst hafa inn á Landspítala alvarlega veikir af Covid. Síðustu tvo sólarhringa hafa til að mynda sex lagst inn veikir af veirunni en þrír voru útskrifaðir.
Allir yfir sextugu og í áhættuhópum boðinn þriðji skammtur
Sextán liggja nú inni á spítalanum með veikina, þar af eitt ungbarn. Fjórir eru á gjörgæslu, þar af einn í hjarta- og lungnavél og tveir á öndunarvél. Tveir þeirra eru fullbólusettir. Þá liggur einn inni á Sjúkrahúsinu á Akureyri í öndunarvél vegna Covid-19.
„Spá um þróun faraldursins er því að raungerast þ.e. útbreiðsla smita er að aukast í kjölfarið á afléttingu takmarkana og jafnframt er fjöldi þeirra sem leggst inn á sjúkrahús alvarlegga veikur að aukast. Um 2% þeirra sem greinast með Covid-19 þurfa á spítalavist að halda og eru um 60% þeirra full bólusettir,“ skrifar Þórólfur í pistlinum.
Hann segir að nú fari að hefjast hér átak í áframhaldandi bólusetningum gegn Covid. Allir 60 ára og eldri verði kallaðir inn í sína þriðju bólusetningu, eða örvunarbólusetningu, sem og einstaklingar með undirliggjandi ónæmisvandamál og þar að auki framlínustarfsmenn, eins og heilbrigðisstarfsmenn, lögregla og sjúkraflutningamenn.
Þá er til skoðunar að bjóða öllum örvunarbólusetningu sem fyrst væri gefin fimm til sex mánuðum eftir skammt númer tvö. Víðtæk reynsla er enn ekki komin á örvunarbólusetningu gegn Covid-19 en Ísraelar hafa líklega mesta reynslu af því enn. Þar hefur öllum verið boðin örvunarbólusetning með bóluefni Pfizer um fimm til sex mánuðum eftir annan skammt.
Alvarleg veikindi meðal bólusettra fimm sinnum fátíðari en meðal óbólusettra
Niðurstöður ísraelskra rannsókna benda til að örvunarbólusetning sé um 90 prósent virk í að koma í veg fyrir smit og alvarleg veikindi.
„Í kynningu Íraelsmanna á sínum niðurstöðum kemur einnig fram að alvarlegar aukaverkanir eru líklega færri eftir þriðja skammt en eftir skammt tvö en þess ber að geta að alvarlegar aukaverkanir eftir skammt tvö eru mjög fátíðar,“ skrifar Þórólfur.
„Það er líklegt að fljótlega verði hafist handa hér á landi við að bjóða öllum örvunarbólusetningu með bóluefi Pfizer a.m.k. 5-6 mánuðum eftir bólusetningu tvö. Vonir eru bundnar við að örvunarbólusetning muni bæði koma í veg fyrir smit og alvarleg veikindi umfram tvær sprautur,“ segir í pistlinum.
„Einnig er mikilvægt að allir sem ekki hafa mætt í sína fyrstu bólusetningu geri það sem fyrst því alvarleg veikindi meðal bólusettra (eftir tvær sprautur) eru um fimm sinnum fátíðari en meðal óbólusettra.“