Þetta kemur fram í svörum umhverfisráðuneytisins við fyrirspurn Vísis en tilefni hennar var gagnrýni á þátttöku Íslands, sem hefur verið sett fram á samfélagsmiðlum.
Meðal gagnrýnenda er Sigríðar Á. Andersen, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem spurði meðal annars á Facebook hvort einhver fulltrúa Íslands hefði ekki „sagt okkur hinum að ferðast minna vegna „hamfarahlýnunar““ og „skipað okkur hinum að vera heima vegna þess að smitum sé að fjölga og „við séum öll almannavarnir““.
Færsla Sigríðar hefur vakið nokkra athygli og meðal annars verið deilt 67 sinnum.
Í svörum umhverfisráðuneytisins segir hins vegar meðal annars að samkvæmt lögum um loftslagsmál eigi ráðuneyti og stofnanir að kolefnisjafna flug sitt og að ráðuneytin muni kolefnisjafna tvöfalt fyrir umrætt flug í samræmi við loftlagsstefnu stjórnarráðsins.
Þá er bent á strangar sóttvarnareglur ráðstefnunnar en ólíkar reglur munu gilda um þá sem eru fullbólusettir og þá sem hafa ekki verið bólusettir. Allir þátttakendur eru hvattir til að láta bólusetja sig áður en þeir ferðast á ráðstefnuna og allir þurfa að framvísa neikvæðu Covid-19 prófi áður en þeir ferðast.
Þátttakendur munu einnig þurfa að taka nýtt Covid-19 próf innan tveggja daga eftir komuna til Glasgow og aftur á áttunda degi ef þeir eru óbólusettir. Þá verða allir að taka hraðpróf einu sinni á dag, ef þeir hyggjast sækja viðburði á dagskrá ráðstefnunnar. Gestir verða einnig að virða eins metra fjarlægðarmörk og bera grímu þar sem þess er krafist.
Meðal þátttakenda Íslands á ráðustefnunni, sem hófst í gær og stendur yfir til 12. nóvember, eru Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Þórdís Kolbrún Gylfadóttir ferðamála- og nýsköpunarráðherra.
Þá munu einnig sækja fundinn fulltrúar frá Reykjavíkurborg, umhverfisverndarsamtökum, lífeyrissjóðum og ýmsum fyrirtækjum.