Það er óhætt að segja að hrekkjavakan sé komin til að vera á Íslandi. Ein sönnun þess er árlegt hrekkjavökuball á Hrafnistu og fréttastofa leit að sjálfsögðu við.

„Við reynum að nota hvert tækifæri sem við getum til þess að brjóta upp hversdagsleikann hjá okkur og erum ótrúlega dugleg að gera eitthvað skemmtilegt eins og í dag. Það sem er svo skemmtilegt er að íbúarnir eru algjörlega tilbúnir að vera með okkur í þessu og það er það sem gerir þetta svo skemmtilegt,“ sagði Árdís Hulda Eiríksdóttir, forstöðumaður á Hrafnistu Hraunvangi.
„Það er alltaf gaman hérna, það er dansað á hverjum einasta föstudegi,“ sagði Bryndís Sigurðardóttir.

„Þegar ég kom hingað fyrir nokkrum vikum þá sagði ég: „Ég er á sex stjörnu hóteli og ég er enn á sex stjörnu hóteli,“ sagði Jóel Hreiðar Georgsson.
Það er svona gaman?
„Þetta er svo gaman að vera hér. Alveg dásamlegt.“
Íbúar voru hvattir til að mæta í búningi á ballið en engin formleg búningakeppni fór þó fram.
„Nei en það er samt innri samkeppni, það er ekki hægt að neita því. Þó að það sé ekki formlegt þá að sjálfsögðu er keppni á milli manna,“ sagði Árdís.

Í hvaða búningi ert þú, hver ert þú?
„Ég er bara ég, þetta er bara hárkolla,“ sagði Bryndís.
Varstu búin að hugsa mikið út í búninginn?
„Nei þetta kom bara að sjálfu sér. Tengdadóttir mín útvegaði mér þetta.“
En þú ert ekki í neinum búningi?
„Nei ég er bara með þessa hendi,“ sagði Jóel og hlær.

Og auðvitað var fólki var boðið upp á eiturgrænan drykk.
„Heyrðu þetta er alveg baneitrað. Ég myndi ekki fá mér í þínum sporum,“ sagði Árdís í gríni.
Er í lagi með þennan drykk?
„Nei þetta er hræðilega vont,“ sagði Bryndís.
„Íslendingar eru sjúkir i Halloween og þar eru heimilismenn á Hrafnistu engin undantekning. Við erum á trylltu dansiballi.“

Heimilismenn stigu flestir dans en það var DAS bandið sem hélt uppi fjörinu.
„Þetta er hið eina sanna DAS band sem spilar hér alla föstudaga. Þau gefa vinnu sína til okkar. Algjörlega frábært band sem heldur uppi stemningunni hjá okkur og eru akkúrat með ef það er þema hjá okkur, þá eru þau komin í þemabúninga,“ sagði Árdís.
Fólk er að skemmta sér vel?
„Mjög vel. Þetta er frábær dagur.“



