Blaðamaður flækti ekki hlutina heldur spurði fyrst Finn hvar leikurinn hafi unnist í kvöld. Finnur flækti hlutina heldur ekki í svari sínu.
„Það var bara eitt gott stopp hérna í lokin og á nokkrum góðum körfum.“
Finnur sagði eftir leik við Njarðvíkinga að hans menn þyrftu að bregðast betur við mótlæti þegar það gerir vart við sig og var því spurður að því hvort hann hafi séð það frá þeim í kvöld. Mótlætið gerði nokkrum sinnum vart við sig nefnilega.
„Já mér fannst við gera það betur allan tímann. Takturinn kom og fór samt sem áður en mér fannst við allan leikinn vera að skapa fín skot en þetta verður náttúrlega alltaf erfiðara og erfiðara þegar skotin detta ekki.“
Í kjölfarið var Finnur spurður að því hvort hann þyrfti að segja eitthvað við sína menn eða hvort þeir þyrftu sjálfir að finna taktinn hjá sér til að hlutirnir færu að ganga betur.
„Ég treysti þessum gæjum 100%. Það er ferli í gangi sem við erum að vinna í og við erum ekki á þeim stað sem við viljum vera og eigum langt í land en öll ferðalög byrja á einu skrefi, við erum búin að taka nokkur og þurfum að halda áfram að taka stór skref áfram. Við þurfum að vera þolinmóðir og treysta því sem við erum að gera og treysta hvorum öðrum.“
„Sigur er sigur og þeir eru dýrmætir í þessari deild. Nú er bara að koma bikarleikur á móti sterku liði Blika og við þurfum að vera klárir í það.“