Erlent

Telja að veiran hafi banað á annað hundrað þúsund heil­brigðis­starfs­mönnum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Talið er að allt að 180 þúsund heilbrigðisstarfsmenn hafi dáið vegna kórónuveirusmits.
Talið er að allt að 180 þúsund heilbrigðisstarfsmenn hafi dáið vegna kórónuveirusmits. EPA-EFE/FABRICE COFFRINI

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, telur að kórónuveiran gæti hafa dregið allt frá 80 þúsund til 180 þúsund heilbrigðisstarfsmenn til bana frá upphafi faraldursins. 

Þetta kom fram í máli Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmanns stofnunarinnar, í dag. Hann sagði faraldurinn hafa haft veruleg áhrif á heilbrigðisstarfsfólk og ljóst sé að bólusetningar heilbriðisstarfsfólks verði að ganga fyrir. Breska ríkistúvarpið greinir frá. 

Ghebreyesus gagnrýndi harðlega misskiptingu bóluefna í heiminum en sérfræðingar WHO hafa varað við því að skortur á bóluefnum á ákveðnum svæðum geti leitt til þess að faraldurinn muni vera viðvarandi vandamál næsta árið.

Talið er að um 135 milljónir manna starfi í heilbrigðisgeiranum á heimsvísu. 

„Tölfræði frá 119 löndum benda til þess að að meðaltali séu tveir af hverjum fimm heilbrigðisstarfsmönnum í heiminum fullbólusettir,“ sagði Tedros í dag. 

„En að sjálfsögðu er þetta mjög misjafnt á milli heimshluta og á milli ríkja sem eru misvel stödd efnahagslega.“

Færri en einn af hverjum tíu heilbrigðisstarfsmönnum eru fullbólusettir í Afríku, miðað við átta af hverjum tíu í hátekjuríkjum. Minna en fimm prósent almennra borgara í Afríkjuríkjum hafa fengið bólusetningu gegn veirunni miðað við 40 prósent í flestum öðrum heimsálfum. 

Þá hefur miklum meirihluta bóluefnabirgða heimsins verið dreift í hátekjuríkjum eða miðtekjuríkjum. Aðeins um 2,6 prósent bóluefnaskammta sem hafa verið afhentir hafa verið fluttir til Afríkuríkja. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×