Sport

„Ánægð með liðið eftir þessa skíta byrjun“

Atli Arason skrifar
Hallveig Jónsdóttir var ánægð með sigurinn á Njarðvík eftir erfiða byrjun Vals í leiknum.
Hallveig Jónsdóttir var ánægð með sigurinn á Njarðvík eftir erfiða byrjun Vals í leiknum. vísir/bára

Hallveig Jónsdóttir, leikmaður Vals, var heldur betur létt í leikslok eftir nauman sigur á Njarðvík í kvöld.

„Ég er ógeðslega ánægð með liðið eftir þessa skíta byrjun hjá okkur. Ótrúlega ánægð og stolt af liðinu,“ sagði Hallveig í viðtali við Vísi eftir leik.

„Ég er aðallega ánægð með ‘comeback-ið‘ í leiknum. Það er ofboðslega auðvelt þegar þú lendir 19-4 undir að leggjast bara niður og fara að væla. Við gerðum það ekki og fáum þar að leiðandi tvö stig í dag.“

„Við höfum haft smá í vandræðum með að koma gíraðar inn í leiki, svona eins og við nennum ekki að vera hérna, sem er alls ekki rétt. Við þurfum að finna einhverja leið til að laga það en á meðan við erum að vinna leikina þá er okkur kannski alveg sama um það,“ sagði Hallveig með stórt bros á vör.

Valur tapaði með 34 stigum gegn Keflavík í bikarkeppninni síðasta sunnudag en fær nú tækifæri til að hefna fyrir það í deildinni þegar þessi lið mætast aftur. Hallveig kveðst spennt fyrir því að mæta Keflavík aftur.

„Það var nú meiri skitan. Það verður gaman að mæta þeim aftur og sýna okkar rétta andlit. Ég býst við hörku leik á sunnudaginn,“ sagði Hallveig Jónsdóttir, leikmaður Vals.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×