Það var góð aðsókn að hrútasýningunni í reiðhöllinni enda mikið um góða fjárbændur og fallegt fé í Hrunamannahreppi. Dómarar dæmdu féð með því að þukla háls og herðar, bak og læri, ásamt því að meta ullina og samræmi gripsins.
„Já, við erum hérna með rollubingó, sem snýst aðallega um að rollan er sett inn í ákveðna girðingu og ef hún skítur í reitinn sem þú átt þá færðu veglegan vinning. Það er mjög öflug sauðfjárrækt hér í sveitinn, mikil hefð og áhuginn alltaf að aukast og félagið okkar er sterkt og gott og það er góður andi í kringum sauðféð hérna í sveitinni,“ segir Árni Þór Hilmarsson, formaður Sauðfjárræktarfélags Hrunamanna.

Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra mætti á hrútasýninguna og fékk að þukla hrút.
Jökull Helgason á Ósabakka byrjaði á því að leiðbeina ráðherranum enda langt síðan að ráðherrann þuklaði síðast hrút.
„Þetta er bara hluti af lífinu í sveitinni og er skemmtilegt. Það er orðinn heilmikil stemming aftur fyrir íslensku sauðkindinni, sem betur fer út um allt og sýning, sem þessi er hluti af félagslífinu og góðu samfélagi,“ segir Sigurður Ingi.

Aðrir gestir sýningarinnar létu líka til sín taka í þuklinu eins og Stína kokkur á Flúðum eins og hún er alltaf kölluð en hún leitaði af djúsí vöðvum til að matreiða úr.
„Já, ég var að leita af gæðum í lærum, hryggvöðvum og síðan tók ég náttúrlega aðeins undir þá hvernig að þeir væru að virka , þetta leit allt vel út,“ segir Stína hlægjandi.
Og prestsfrúin í Hruna, Elín Una Jónsdóttir, stóð sig líka vel í þuklinu.
„Þetta snýst um læri og bak og heildarbyggingu og bara að vera flottir. Ég hef reyndar ekkert vit á þessu, ég bara þukla, ég er góð í því,“ segir hún alsæl með hrútasýninguna.
