Í frétt á vef DW kemur fram að hún bar sigurorð af kollega sínum Stephane Le Foll, borgarstjóranum í Le Mans, í forvali flokksins.
Hidalgo tilkynnti um framboð sitt í síðasta mánuði, en hefur ekki náð miklu flugi í baráttu sinni hingað til. Í stuttri ræðu í gær sagðist hún myndu leggja áherslu á umhverfismál og félagsmál, auk þess sem hún hét því að vera rödd allra franskra kvenna.
Sósíalistaflokkurinn má sannarlega muna fífil sinn fegurri, en eftir að gríðarlegar óvinsældir Francois Hollande í forsetaembættinu á árunum 2012 til 2017, hefur fylgi hans verið í lægstu lægðum.
Emmanuel Macron forseti hefur ekki enn tilkynnt um að hann muni bjóða sig fram til endurkjörs, en fastlega er búist við því að svo fari.
Líklegast er að Macron og hægri-pópúlistinn Marine Le Pen muni mætast í lokasennu kosninganna sem fara fram í apríl næstkomandi.