Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í viðtali við Ríkisútvarpið í gær að hugsanlegt væri að inflúensa og RS-veira settu strik í reikninginn hvað varðaði afléttingar á sóttvarnatakmörkunum. Áfram ætti að aflétta smám saman en draga þyrfti lærdóm af bakslaginu síðasta sumar þegar öllum takmörkunum var aflétt.
RS-veiran sé alvarlegur faraldur hjá börnum bæði í Danmörku og í Svíþjóð. Sjá þurfi hvað gerist hér á landi.
„Svo eru menn að spá því jafnvel að inflúensan geti orðið alvarlegri en áður, af því að hún gekk ekki í fyrra,“ sagði Þórólfur. Það þyrfti að hafa í huga við ákvarðanatöku um afléttingu samkomutakmarkana.
Jarðhræringar og inflúensa ekki málefnalegar ástæður
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að jarðhræringar, inflúensa og RS-vírus séu ekki, og hafi aldrei verið, málefnalegar ástæður til takmörkunar á athafnafrelsi almennings.
„Þátttaka í lífinu hefur alltaf verið hættuspil, en stærsta aðsteðjandi ógnin við líf og heilsu fólks er ekki farsótt, nú þegar 90% fullorðinna hafa verið bólusettir gegn kórónaveirunni. Það er ómögulegt að greina nokkurn ávinning eða ábata af áframhaldandi takmörkunum - hins vegar er miklu til kostað og mörgu fórnað,“ segir Hildur á Facebook.
Styður að aflétta öllum takmörkunum
Veitingamenn, listamenn og fjölmargir aðrir hafi orðið fyrir óbætanlegu tjóni af völdum takmarkana sem þjóni ekki lengur almannahagsmunum.
„Atvinnurekendur um alla borg berjast í bökkum vegna heimatilbúinna skilyrða stjórnvalda, sem eiga sér ekki hliðstæðu í nágrannalöndum. Það er löngu tímabært að endurheimta takmarkalaust samfélag og eðlilegt líf. Afléttingar strax.“
Áslaug Arna ræddi málið í Reykjavík síðdegis í gær, ásamt fleiri málum.
„EKki er hægt að rökstyðja takmarkanir með hefðbundnum inflúensum og RS vírusum. Ég styð það að aflétta öllum takmörkunum,“ segir Áslaug í færslu á Instagram.
Hvað ræður Landspítalinn við?
Þórólfur lagði áherslu á það í viðtali við fréttastofu í gær að ekki yrði opið fram á nótt á skemmtistöðum bæjarins.
„Við erum náttúrulega með einhverjar takmarkanir í gangi og ég held að þar muni mestu um lokun á börum og skemmtistöðum, að þar sé ekki opið fram á nótt. Ég held að það skipti gríðarlegu máli,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Tilfelli á hverjum degi séu enn 20-60 og af þeim leggist tvö prósent inn á spítala.
„Getum við slakað á og búist við aukningu? Og getur spítalinn ráðið við það? Það er stóra spurningin.“