Í norsku úrvalsdeildinni var Íslendingaslagur þar sem Viking mætti Sandefjord. Patrik Sigurður Gunnarsson stóð vaktina í liði heimamanna meðan Viðar Ari Jónsson byrjaði í hægri bakverði hjá gestunum. Þá var Samúel Kári Friðjónsson á bekknum hjá Viking.
Patrik Sigurður fékk því miður beint rautt spjald strax á 18. mínútu og heimamenn því manni færri það sem eftir lifði leiks. Það kom ekki að sök þar sem þeir unnu 2-1 sigur. Samúel Kári kom inn af bekknum í hálfleik en Viðar Ari lék allan leikinn í liði Sandefjord.
Viking er í 5. sæti með 35 stig að loknum 21 leik á meðan Sandefjord er í 11. sæti með 25 stig.
SPAL var komið í gríðarleg vandræði þegar Mikael Egill kom loks inn af bekknum á 81. mínútu. Staðan þá 2-0 Parma í vil og Buffon ekki þurft að hafa mikið fyrir hlutunum það sem af var leik. Aðeins mínútu eftir að Mikael Egill kom inn á minnkaði Federico Viviani muninn í 2-1.
Venjulegur leiktími var liðinn þegar Lorenzo Colombo jafnaði metin fyrir heimamenn. Skömmu síðar fékk Franco Vazquez rautt spjald í liði gestanna og þeir því manni færri er flautað var til leiksloka, lokatölur 2-2.
Spal er í 14. sæti Serie B með níu stig að loknum sjö leikjum á meðan Parma er í 12. sæti með jafn mörg stig. Hjörtur Hermansson og félagar í Pisa eru á toppnum með 19 stig. Hjörtur var sat á bekknum er liðið vann 2-0 sigur á Reggina í dag.
Þá lék Alexandra Jóhannsdóttir tæplega hálftíma er Eintracht Frankfurt tapaði 2-1 fyrir Hoffenheim í þýsku úrvalsdeildinni. Var þetta fyrsta tap Frankfurt í deildinni en liðið er með níu stig að loknum fjórum umferðum.
