Þetta kemur fram í frétt AP um málið. Bandarísk stjórnvöld lýstu tegundirnar þrjár útdauðar í gær, miðvikudag, en það er nokkuð sjaldgæft að sérfræðingar gefist upp á að finna tegundir á lífi. Vísindamenn vara við því að loftslagsbreytingar, auk annarra breytinga á umhverfi tegunda, geti valdið því að dauði tegunda verði algengari.
Timburdólinn er líklega þekktasta dýrategundin á listanum en dýraáhugafólk hefur lengi leitað fuglsins og ýmsar sögusagnir um að fuglinn hafi skotið upp kollinum víða í Ameríku lifað góðu lífi undanfarna áratugi. Leit vísindamanna að fuglinum á fenjasvæðum Arkansas, Louisiana, Mississippi og Flórída hafa hins vegar engan árangur borið.
Aðrar tegundir á listanum, eins og skelfiskstegund sem fannst í suðausturhluta Bandaríkjanna, fundust í villtri náttúru aðeins nokkrum sinnum og sáust svo aldrei aftur. Tegundin var því þegar í útrýmingarhættu þegar hún fékk nafn.
Tegundirnar eiga allar einn hlut sameiginlegan, fyrir utan að vera útdauðar: Þær voru settar á lista tegunda í útrýmingarhættu í byrjun sjöunda áratugar síðustu aldar. Aðeins ellefu tegundir sem hafa ratað á þann lista hafa verið lýstar útdauðar áður á þeirri hálfu öld sem er liðin síðan lög um dýr í útrýmingarhættu voru samþykkt á Bandaríkjaþingi.