Fótbolti.net greindi frá því á sunnudag að hollenski markvörðurinn Guy Smit væri á förum til Vals eftir frábæra frammistöðu með Leikni á sinni fyrstu leiktíð í Pepsi Max-deildinni í fótbolta.
Koma Smits á Hlíðarenda vekur upp spurningar um framtíð Hannesar sem í haust lagði landsliðshanskana á hilluna. Hann verður orðinn 38 ára gamall þegar næsta leiktíð hefst í Pepsi Max-deildinni.
Hannes vildi ekkert tjá sig um málið við Vísi. Sigurður Kristinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vals, sagði leikmannamál á könnu formannsins Barkar Edvardssonar en Börkur hefur ekki svarað þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Uppfært klukkan 12.45: Vísir náði tali af Berki eftir að greinin birtist en hann sagði aðeins að Hannes væri með samning til eins árs í viðbót hjá Val og vildi ekki tjá sig um málið að öðru leyti.
Í stuttu samtali við Fótbolta.net svaraði Hannes, aðspurður hvort einhverjar viðræður væru í gangi: „Nei, það eru engar og næst ekki í neinn niðri á Hlíðarenda."
Hannes þótti leika vel í sumar en lið Vals olli miklum vonbrigðum og endaði í 5. sæti Pepsi Max-deildarinnar auk þess að falla úr leik gegn Lengjudeildarliði Vestra í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins.
Smit er 25 ára gamall og hefur varið mark Leiknis síðustu tvö tímabil. Þeir Hannes voru á sama tíma hjá hollenska félaginu NEC Nijmegen tímabilið 2015-16.
Kristinn rætt við önnur félög
Kristinn Freyr Sigurðsson er á förum frá Val en hann hefur átt í viðræðum við Breiðablik og fleiri félög hafa sýnt honum áhuga. Hann er samningslaus en hans mál ættu að skýrast í vikunni.
Kristinn, sem er uppalinn hjá Fjölni, hefur verið í burðarhlutverki hjá Val um langt árabil. Hann hefur leikið með Val frá árinu 2012, ef undan er skilin ein leiktíð með Sundsvall í sænsku úrvalsdeildinni 2017.
Kristinn, sem verður þrítugur á jóladag, var í byrjunarliði Vals í 18 leikjum í Pepsi Max-deildinni í sumar og kom við sögu í öllum leikjum nema einum. Hann skoraði eitt mark.