Ríkisstjórnin hélt velli í kosningunum og fer úr 33 þingmönnum í 37. Þingflokkur Vinstri grænna kom saman í gær og þingflokkar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hittast í dag.
Fréttastofa hefur ekki náð tali af formönnum flokkanna í dag en fékk upplýsingar um að þeir myndu veita viðtöl þegar þeir hafa klárað sína þingflokksfundi. Þeir stefni á að freista þess að endurnýja samstarf sitt nú í vikunni en búist er við að forsætisráðherrastóllinn verði helsta þrætueplið.
Samkvæmt upplýsingum Vísis eru formenn allra flokka að fylgjast vel með stöðunni á meðan fulltrúar kerfisins ráða ráðum sínum.
Landskjörstjórn fundar á öðrum tímanum í dag og að þeim fundi loknum ætti að skýrast hver næstu skref verða - til dæmis þegar kemur að kröfu fjögurra flokka um endurtalningu atkvæða í Suðurkjördæmi, þar sem einkar mjótt var á munum.