Dubai CrossFit Championship fer nú fram á ný en ekki var keppt á þessu árlega stórmóti í fyrra vegna kórónuveirufaraldursins.

Björgvin Karl Guðmundsson er sá eini af íslensku körlunum sem fékk boð en hjá konum var þremur boðið eða þeim Anníe Mist Þórisdóttur, Katrínu Tönju Davíðsdóttur og svo Söru Sigmundsdóttur.
Það er heiður að vera boðið á þetta glæsilega mót sem fer fram í eyðimörkinni í Dúbaí 16 til 18. desember næstkomandi. Aðeins besta CrossFit fólks heims fékk nefnilega boð á mótið.
Mótið er boðsmót og því gat enginn unnið sér þátttökurétt á mótinu í ár en mótið hefur oft verið sambland af boðsgestum og fólki sem fer í gegnum sérstaka undankeppni. Þá hefur mótið verið minnkað úr fjögurra daga keppni í þriggja daga keppni.
Mótið fer ekki aðeins fram á mjög sérstökum stað í eyðimörkinni heldur er verðlaunaféð með því besta sem sést. Sigurvegarinn fær fimmtíu þúsund Bandaríkjadali í ár eða 6,5 milljónir íslenskra króna og annað sætið gefið þrjátíu þúsund dali eða 3,9 milljónir íslenskra króna.

Keppendurnir eiga hins vegar eftir að staðfesta þátttöku sína. Það kallar á langt ferðalag og keppendurnir þurfa að mæta helst viku fyrir keppni til að venjast tímamismuninum.
Í hópnum er síðan Sara Sigmundsdóttir. Sara, sem vann mótið þegar það fór fram síðast í árslok 2019, en hún missti af öllu síðasta tímabili vegna krossbandsslits.
Sara fór í aðgerð um miðjan apríl og það verður að teljast frekar ólíklegt að hún sé klár í keppni í desember eða aðeins átta mánuðum síðan.
Anníe Mist og Katrín Tanja munu eins og Björgvin Karl keppa á Rogue Invitational sem fer fram í Austin í Texas fylki í Bandaríkjunum í lok október.
Það verður því fróðlegt að sjá það hvort íslenska CrossFit fólkið staðfestir þátttöku sína á næstu dögum sem og hvernig lokahópurinn mun líta út.