Forsvarsmenn FÍA segja í tilkynningu málið vera fordæmisgefandi og því sé sigurinn mikilvægur, ekki bara fyrir flugmenn heldur fyrir öll stéttarfélög í landinu.
„Málsatvik eru þau að íslenskt fyrirtæki í örum vexti rekur alla félagsmenn stéttarfélags á einu bretti en hafði stuttu áður ráðið til sín sambærilegan fjölda gerviverktaka sem gengu beint í störf stéttarfélagsmanna. Þetta var gert þrátt fyrir að í kjarasamningi milli aðila hafi verið skýr ákvæði um forgangsrétt félagsmanna FÍA til starfa hjá Bláfugli sem dómurinn staðfesti að séu enn í gildi, rétt eins og Landsréttur hafði áður komist að niðurstöðu um,“ segir Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, í tilkynningu frá FÍA.
„Þetta er mikilvægur sigur í baráttu stéttarfélaga, eftirlitsaðila og stjórnvalda gegn gerviverktöku.“