Eftir leikinn sagði Guardiola að Grealish og Mahrez hefðu óhlýðnast skipunum sínum frá því í hálfleiknum og þess vegna hafi hann látið þá heyra það.
„Í hálfleiknum ræddum við um það sem þeir áttu að gera en þeir gerðu það ekki. Menn rífast,“ sagði Guardiola.
Sjálfur vildi Grealish ekki ræða mikið um skammirnar sem hann fékk frá Guardiola.
„Þetta snerist bara um varnarvinnu. Ég vil ekki fara of djúpt í það því hann vill kannski spila eins um helgina,“ sagði Grealish en City mætir Southampton í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. Eftir leikinn í gær ákallaði Guardiola stuðningsmenn City og hvatti þá til að mæta á völlinn gegn Southampton.
Grealish sagði að hann myndi alltaf hlusta á hinn afar kröfuharða Guardiola. „Svona er stjórinn. Hann vill alltaf meira, bæði í vörn og sókn, og augljóslega hlusta ég á hann vegna alls sem hann hefur afrekað. Hann gaf mér bara gagnlegar ábendingar.“
Grealish lék sinn fyrsta Meistaradeildarleik á ferlinum í gær. Hann lagði fyrsta mark City upp fyrir Nathan Aké og skoraði svo fjórða markið með góðu skoti á 56. mínútu.