Í dag hafa um 140 veitingastaðir á Íslandi tekið upp lausnir Dineout og í síðasta mánuði fóru um sjötíu þúsund borðabókanir í gegnum kerfið þeirra.
„Á bakvið þær bókanir voru rúmlega 240 þúsund gestir sem settust til borðs,“ segir Inga Tinna.
Að þora að láta slag standa
Inga Tinna segir að þegar hugmyndin vaknaði hafi borðapantanir enn farið fram þannig að fólk þurfti að hringja á milli veitingastaða til að leita að lausu borði.
Tæknin um miðlægt kerfi var þó til, til dæmis hafði Inga Tinna sjálf notað bókunarvélina OpenTable til að bóka borð á veitingastöðum í Bandaríkjunum og í Bretlandi.
Ingu Tinnu fannst engin spurning að svona kerfi þyrfti að taka upp á Íslandi.
„Ég hafði samband við OpenTable en löng saga stutt þá ákvað ég að það væri best að gera þetta sjálf frá grunni og fá með mér góða forritara,“ segir Inga Tinna og bætir við:
Ég fékk oft að heyra að þetta væri nú frekar bjartsýnt hjá mér en ég sé ekki eftir því í dag að hafa látið slag standa.“
Þrátt fyrir efasemdaraddir hafði Inga Tinna trú á að hægt væri að búa til svona kerfi á Íslandi. Inga Tinna hafði samband við eiganda Tix miðasölunnar, Sindra Má Finnbogason.
„Ég þekkti Sindra ekkert á þeim tíma. Ég hafði heyrt að hann væri klár og svo var hann auðvitað búinn að búa til hugbúnaðarlausn sem sér um að raða almenning í sæti á viðburðum. Það hlyti að vera álíka verkefni hugsaði ég með mér.“
Og viti menn: Sindra fannst hugmyndin strax frábær!
Í kjölfarið ákváðu Inga Tinna og Sindri að stofna fyrirtækið Dineout. Sem félag, er Dineout skilgreint sem hugbúnaðarfyrirtæki enda snýst starfsemi þess um að smíða og þróa hugbúnaðarlausnir fyrir veitingastaði og hótel. Hluti lausnanna gera svo almenningi kleift sem tengjast í gegnum miðlægan grunn sem allir veitingastaðir geta nýtt sér til þess að bjóða gestum upp á að bóka borð og panta mat og veislubakka rafrænt.

Tíminn var hins vegar dýrmætur því á þessum tíma segir Inga Tinna að erlendir aðilar hafi verið farnir að þreifa fyrir sér með sín kerfi á Íslandi.
„Við þurftum því að bretta upp ermar og hætta að hugsa um þetta sem gæluverkefni eða ella sleppa þessu. Það var auðvitað ekki í boði að gefast upp og á þeim tímapunkti kemur Viktor Blöndal, fyrrum samstarfsmaður Sindra, inní verkefnið, ásamt bróður mínum, Magnúsi Birni sem var þá að útskrifast úr tölvunarfræði,“ segir Inga Tinna og lýsir upphafinu eins og upphaf að góðri hasarmynd.
Viktor og Magnús byrja með tóman skjá og útkoman fjórum árum síðar er lyginni líkust. Í dag erum við ekki bara með vinsælasta borðabókunarkerfi landsins heldur bjóðum við nú uppá heildarlausnir fyrir veitingastaði og hótel.
Við bjóðum uppá borðabókunarkerfi, matarpöntunarkerfi fyrir takeaway og heimsendingar, kassakerfi sem er nýjasta afurðin okkar, lausnir fyrir sjálfvirkar pantanir í gegnum hinn svo kallaða QR kóða, rafræn gjafabréf, búum til vefsíður fyrir okkar viðskiptavini ásamt því að bjóða uppá sérsniðinn hugbúnað fyrir sölu viðburða á veitingastöðum.“
Á tímum heimsfaraldurs hafa tekjur Dineout margfaldast sem fyrir suma kann að hljóma undarlega þar sem gestafjöldi dróst nokkuð saman um tíma á veitingastöðum. En margir staðir tóku þá upp á heimsendingu og þá kom sér vel fyrir veitingastaði að nýta lausnir Dineout.
Þá er Dineout Iceland appið að vaxa hratt en þar telja nú ríflega 20 þúsund notendur.
Útrásin komin á fullt: Tix og Dineout
Stuttu fyrir Covid tók Dineout sín fyrstu skref á erlendum mörkuðum. Annars vegar á Spáni og hins vegar í Stavanger í Noregi.
Í síðasta mánuði var síðan tilkynnt að Tix hefði fjárfest í Dineout og segir Inga Tinna að í kjölfarið sé stefnt á enn hraðari sókn á erlenda markaði.
„Það eru gríðarleg tækifæri þarna úti og spennandi tímar framundan. Við höfum alltaf verið að vinna að 360 gráðu lausn og þá miðað við heildarlausn fyrir veitingastaði og hótel,“ segir Inga Tinna og bætir við:
Eftir fimm ár vonast ég til þess að við verðum búin að ná markmiðum okkar varðandi vöxt fyrirtækisins og útbreiðslu á erlendum mörkuðum.
Við erum nú þegar byrjuð í þeirri vegferð að koma hugbúnaðarlausnum okkar á erlenda markaði.“
Þá segir Inga Tinna marga kosti við að bjóða upp á hugbúnaðarlausnir þar sem notendur hafa eina lausn sem býður upp á allt sem þú þarft fyrir reksturinn.
„Þegar þú þarft til dæmis að breyta verðum á vöru, breytir þú á einum stað og það flæðir í gegnum allt kerfið sem þýðir að samstundis breytist verðið á heimasíðunni þinni, í sölukerfinu þínu og svo framvegis. Það felst líka mikill kostur í því að starfsfólk þarf ekki að læra á mörg kerfi, heldur vinnur við eitt og sama kerfið.“
Með samvinnu við Tix eru líka fleiri tækifæri að opnast fyrir enn breiðari markhóp.
„Tengingar hugbúnaðarlausna Tix og Dineout gera það að verkum að tónleikahús, leikhús og bíóhús geta verið með eina heildarlausn fyrir reksturinn.“
Inga Tinnu segist ekki vita til þess að slíkt lausn þekkist annars staðar í Evrópu.

Góðu ráðin: Það eru ekki allir vinir þínir
En fyrir aðra frumkvöðla sem nú eru við það að stofna sitt eigið fyrirtæki eða vilja láta sína drauma rætast, er ekki úr vegi að leita í reynslusmiðju Ingu Tinnu og spyrja hvaða ráð hún geti gefið öðrum.
Inga Tinna segir áskoranirnar vissulega margar og þar sé mikilvægt að taka alltaf bara eitt skref í einu og leyfa sér aldrei þá hugsun að vilja gefast upp.
Hér eru fleiri góð ráð:

- Ef þú ert með hugmynd sem þú hefur trú á, framkvæmdu hana. Láttu verkin tala. Það verður trúlega alls ekki auðvelt og þú munt þurfa að ryðja mörgum steinum úr veginum og takast á við margar áskoranir en þrautseigja, útsjónarsemi og þolinmæði eru bestu vinir þínir á ferðalaginu.
- Hafa alltaf augun á því hvaða vandamál eða þarfir sé verið að leysa og passa að tímanum sé alltaf vel varið í þá hluti sem verið er að vinna að. Viðskiptavinirnir eru mikilvægasti hlekkurinn í þróun og að hlusta á þá og þeirra þarfir ætti að vera ávinningur allra.
- Ef þú ert að gera góða hluti, þá munu aðrir vilja gera það sama. Samkeppni er óhjákvæmileg. Það er hægt að nýta hana til að verða enn betri. Það er hægt að líkja eftir því sem þú gerir og framleiðir en það er ekki hægt að endurgera þig sem persónu og teymi. Styrkleikarnir felast í teyminu sem er að mínu mati verðmætasti hluti fyrirtækisins.
- Þó svo að þú sért búin að ákveða eitthvað, er ekki þar með sagt að það þurfi ekki að breytast. Sveigjanleiki skiptir gríðarlega miklu máli og að þróa hugsanir sínar og áherslur í takt við tímann og nýjar upplýsingar. Covid er gott dæmi um aðstæður sem í raun fæddu af sér nýjar og góðar lausnir og tækifæri.
- Ekki taka því persónulega að fólk hafi sterkar skoðanir á því sem þú ert gera. Vera samkvæmur sjálfum sér og eigin sannfæringu en opinn fyrir öllum ábendingum. Skiptir máli hvern maður hlustar á. Það eru endalausar raddir sem vilja benda manni á að gera hlutina svona og hinsegin.
- Að hafa góðan ráðgjafa er gulls ígildi. Minn helsti og besti ráðgjafi er pabbi minn. Ég er rosalega heppin með það að ég get alltaf tekið upp tólið og viðrað hugmyndir, fengið bestu ráðin, pústað og fengið lánaða dómgreind.
- Passa uppá að velja VEL í liðið sitt. Það er gulls ígildi og skiptir mestu máli að hafa gott fólk með sér.
- Kunna að úthýsa verkefnum og treysta starfsfólkinu
- Það er stundum sem maður stendur sjálfan sig í því að vera orðinn of reactive. Það er hættulegt að mínu mati. Það er nauðsynlegt að vera proactive og passa uppá framtíðarsýnina.
- Gott að setjast niður með öðrum frumkvöðlum eða stjórnendum og deila reynslu og hugmyndum. Það finnst mér oft gagnlegt og er með fáa en góða slíka aðila. Það hefur blundað í mér að stofna til hóps sem hefur það að markmiði að hittast einu sinni í mánuði og fara yfir málin með þessum hætti.
- Í viðskiptaheiminum þýðir ekki að vera það einfaldur að halda að allir séu vinir manns. Hef því miður þurft að brenna mig oftar en einu sinni á því að treysta en viðkomandi er ekki traustsins verður. Það er lífsreynsla og kennsla. Maður þroskast og breytir nálgunum sínum.
- Svo þarf klárlega að muna að staldra við og njóta árangursins. Það vill oft gleymast og ánægjutilfinningin staldrar stutt við þegar áfanga er náð. Samstundis er jafnvel komið nýtt og stærra markmið og svona heldur lestin áfram. Margt smátt gerir eitt stórt.