Þegar nýtt fyrirkomulag verður komið í gagnið má sjá fyrir sér veruleikann einhvern veginn þannig að sé maður á leið á til dæmis tónleika á föstudegi, þurfi maður að skella sér í hraðpróf á miðvikudegi eða helst fimmtudegi, enda gildir niðurstaðan, sem maður fær beint í símann, í 48 tíma.
Á höfuðborgarsvæðinu þarf að mæta á Suðurlandsbraut þar sem skimanir hafa staðið yfir. Þar fer fólk í hraðpróf sér að kostnaðarlausu. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslunni, segir að afgreiðslutíminn verði langur fólki til hægðarauka.
„Við ætlum að stíla inn á að opnunartími verði 8-8. Þá getur fólk líka komið eftir vinnu ef það er til dæmis að fara á viðburð um kvöldið, að þurfa ekki að fara úr vinnu. Þannig að við erum að reyna að teygja okkur í alla kanta þannig að þetta verði ekki mikið mál,“ segir Ragnehiður.
Sá sem fær jákvæða niðurstöðu á degi viðburðar er harla ólíklegur til að komast á hann. Hann fer beinustu leið í PCR-próf, en komi það út neikvætt er hann vissulega frjáls ferða sinna.
Heilsugæslan gerir ráð fyrir að geta hafið hraðprófun vegna smitgátar skólabarna strax í vikunni og vegna viðburðahalds öðru hvorum megin við næstu helgi. Þetta verða nokkur þúsund hraðpróf á dag.
„Það sem við sjáum líka fyrir okkur við að taka svona stóra hópa, er að þetta er svo mikil skimun í leiðinni. Það myndi vonandi hjálpa okkur líka við að ná þessari bylgju niður. Svo veit maður þá ekki þegar hún er komin niður hvort það verði eitthvað slakað á meira,” segir Ragnheiður.
Hraðpróf frá ýmsum framleiðendum hafa verið pöntuð inn og hið opinbera niðurgreiðir framkvæmdina alfarið. Fyrir eins umfangsmikla framkvæmd vantar heilsugæsluna einnig starfsfólk og hefur auglýst eftir því. Hraðprófin hjá heilsugæslunni verða framan af eina leið fólks til að komast á 500 manna viðburði og heimapróf eða sjálfspróf verða þar ekki tekin gild.