Klara sagðist hafa heyrt um hópnauðgunina í sumar og að málið hafi verið sett í ferli innan KSÍ. Þórhildur greindi nýverið frá því að hún hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu leikmanns karlalandsliðsins í knattspyrnu haustið 2017. Leikmaðurinn játaði brot sín og greiddi henni miskabætur.
Er þetta eina brotið sem þú hefur vitað um?
„Já og nei, ég náttúrulega heyrði í sumar af brotum, sem hefur verið … já semsagt af þessari hópnauðgun og það mál var líka flutt í ferli. Við höfum sagt það opinberlega að það ferli gekk ekki nógu vel hjá okkur og það er ein af ástæðum þess að við erum hér í kvöld,“ sagði Klara í tíufréttum RÚV.
Bætti hún við að stjórn KSÍ hafi um helgina fengið ábendingu um annað kynferðisbrotamál. Stjórnin hafi í kjölfarið sótt ráðgjöf til nýstofnaðs starfshóps sem sé ætlað að koma meðferð slíkra mála í betri farveg innan sambandsins.
„Það kom til ákveðins stjórnarmanns og viðkomandi stjórnarmaður flutti það í ferli til þess sem hefur tekið að sér að vera formaður þess starfshóp sem um ræðir.“
Klara sagðist ekki vera viss um hvort síðarnefnda málið varði liðsmann karlalandsliðsins.
„Ég spurði ekki út í efnisatvik en ég veit að þessi stjórnarmaður fékk ábendingu um það, kom því strax áfram og flutti málið í ferli. Kynferðisafbrotamál eru viðkvæm mál og þau eiga ekki að þvælast á milli manna. Við eigum að sjá til þess að það verði gengið í þau en við eigum ekki að hafa þau í umræðu milli manna ef þess þarf ekki.“
Sambandið hefur síðustu vikur verið harðlega gagnrýnt fyrir meðferð sína á kynferðisabrotamálum og tilkynnti stjórn KSÍ í kvöld að hún ætlaði að stíga til hliðar. Þá sagði Guðni Bergsson af sér sem formaður KSÍ um helgina.
Greindi frá hópnauðgun í maí
Líkur eru á því að umrædd hópnauðgun tengist máli konu um þrítugt sem greindi frá því undir eigin nafni á Instagram í maí að tveir íslenskir menn hafi nauðgað henni í útlöndum árið 2010. Þeir hefðu á þeim tíma verið þekktir og annar væri þjóðþekktur í dag. Um er að ræða tvo landsliðsmenn og er annar þeirra ein stærsta stjarna íslenska karlalandsliðsins.
„Ég var búin að drekka áfengi en grunar að einhver hafi sett eitthvað í glasið mitt, gæti hafa verið hvað sem er. Til að gera langa sögu stutta þá ældi ég yfir annan þeirra í leigubílnum á leiðinni á hótelið þeirra, svo aftur í rúmið á hótelinu en þeir létu það ekki stoppa sig og skiptust á að nauðga mér þar sem ég lá í rúminu ber að neðan með ælu í hárinu, andlitinu og fötunum,“ sagði í færslunni en konan var um tvítugt þegar atvikið átti sér stað.
Hún bætti við að ekki liði sá dagur, á þeim ellefu árum sem liðin væru frá atburðinum, að hann kæmi ekki upp í hug hennar. Hún hafi ætlað að kæra, ráðið lögfræðing og farið í skýrslutöku hjá lögreglu.
Alls staðar hafi henni verið tjáð að málið væri erfitt þar sem brotið hefði gerst erlendis og orð þeirra tveggja væru gegn henni einni. Hún hafi ítrekað verið spurð hvort hún vildi leggja málið á sig.
„Eftir margra mánaða bið ákvað ég svo að leggja málið niður, var ekki nógu sterk, gat ekki lagt meira á mig andlega.“
Konan kemur fram undir nafni á samfélagsmiðlum en hún hefur sjálf sterka tengingu við íþróttasamfélagið á Íslandi í gegnum unnusta sinn og barnsföður sem er íþróttamaður í fremstu röð, þó í annarri íþrótt.
Frásögn hennar hefur verið í mikilli dreifingu á samfélagsmiðlum undanfarnar vikur og sjálf deildi hún henni í hringrás sinni á Instagram um helgina og „taggaði" Knattspyrnusamband Íslands með þeim skilaboðum að um væri að ræða ábendingu til KSÍ.