Kaupmáttur lækkaði sömuleiðis milli mánaða en er þó enn nálægt sögulegu hámarki. Kaupmáttaraukning frá júlí í fyrra var 3,4 prósent. Kaupmáttur hefur lækkað um 1,1 prósent frá janúar 2021 en hann hefur aldrei verið hærri en þá.
Rúmlega tvöfalt meiri hækkun á opinberum markaði
Á tímabilinu maí 2020 til maí 2021 hækkuðu laun á almennum markaði um 5,8 prósent en 12,4 prósent á opinberum markaði. Laun hjá sveitarfélögunum hækkuðu um 14,5 prósent á tímabilinu.
Í Hagsjá Landsbankans segir að opinberi markaðurinn hafi þannig verið leiðandi í launabreytingum á tímabilinu, þrátt fyrir að staða kjarasamningagerðar hafi jafnast. Munurinn milli markaða virðist vera að aukast.
Laun verkafólks hafa hækkað mest
Laun verkafólks hækkuðu mest, eða um 8,4 prósent milli ára í maí. Laun tækna og sérmenntaðs fólks hækkuðu minnst, eða um 3,9 prósent.
Launavísitalan hækkaði um 7,5 prósent á tímabilinu þannig að einungis laun verkafólks hafa hækkað meira en meðaltalið og laun annarra starfsstétta minna, sérstaklega tækna og sérfræðinga.
Laun hækkuðu mest í þjónustustörfum
Milli maí 2021 og maí 2021 hækkuðu laun mest hjá starfsfólki á veitinga- og gististöðum, meðal atvinnugreina á almennum markaði. Laun þeirra hækkuðu um 10,5 prósent.
Hækkun launa starfsfólks á veitinga- og gististöðum skýrist annars vegar af áfangahækkunum kjarasamninga upp á 4,9 prósent í apríl 2020 og fjögur prósent í janúar 2021 og hins vegar af skorti á starfsfólki í greininni. Laun hækkuðu um 3,1 prósent í apríl 2021 án þess að um kjarasamningshækkanir væri að ræða.
Hagfræðuideild Landsbankans segir líklega skýringu hækkunarinnar vera að nauðsynlegt hafi verið að hækka laun til þess að geta mannað stöður í greininni, en á þessum tíma hafi einmitt verið nokkur umræða um að erfitt væri að fá fólk til starfa í ferðaþjónustu.
Laun í fjármála- og vátryggingastarfsemi lækkuðu minnst eða um 3,7 prósent. Í Hagsjá segir að laun í þeim geira séu almennt með hæsta móti og hafi krónutöluhækkanir í kjarasamnigum því minnst áhrif þar.