Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna gaf á dögunum út skýrslu sem vakti mikinn óhug meðal heimsbúa. Í skýrslunni kom meðal annars fram að reiknað sé mað að hnattræn hlýnun fari umfram eina og hálfa gráðu strax snemma á fjórða áratug þessarar aldar, þvert á markmið Parísarsamkomulagsins.

Á upplýsingafundi loftslagsverkfallsins í dag fóru sérfræðingar í loftslagsmálum meðal annars yfir röskun mannkyns á kolefnishringrás jarðar, og hvernig kolefnislosun hefur þróast í gegn um tíðina.
„Svo fengum við líka yfirlit yfir það hvernig losun á Íslandi hefur þróast og hvernig framtíðarþróunin getur orðið,“ segir Tinna Hallgrímsdóttir, formaður Ungra umhverfissinna.
„Okkur fannst þetta vera afar aðkallandi málefni núna, sérstaklega í ljósi nýjustu skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.“
Nú sé aðkallandi að neyðarástandi verði lýst yfir í loftslagsmálum og kné sá látið fylgja kviði.
„Ákall loftslagsverkfallsins hefur lengi verið að íslensk stjórnvöld lýsi yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og enn fremur að aðgerðir stjórnvalda séu í samræmi við það neyðarástand sem við búum við, enda er ekki bara nóg að lýsa því yfir heldur þarf líka að grípa til fullnægjandi aðgerða,“ segir Tinna.

Vonir séu um að fundirnir hvetji stjórnmálaflokka til að taka vána alvarlega.
„Við vonum að þessir fundir gefi tóninn, sérstaklega fyrir komandi kosningar svo við fáum að sjá fullnægjandi tillögur frá flokkunum sem munu hjálpa okkur að takast á við þetta ástand af nógu mikilli festu,“ segir Tinna.
„Við viljum auðvitað að öll séu sem upplýstust um þetta málefni og þá sérstaklega stjórnmálafólk, þannig endilega mæta á staðinn.“