Þetta kemur fram í Facebook-færslu Bjarna þar sem hann segir að öllum sé ljóst að kórónuveiran muni áfram vera á meðal landsmanna á næstunni. Sætta þurfi sig við þetta og bregðast við í samræmi við aðstæður.
Ríkisstjórnin kynnti í dag hugmyndir að breytingu á reglum um sóttkví. Markmiðið sé að fækka þeim sem hugsanlega þurfi að fara í sóttkví, bæði í skólum og á vinnustöðum, með ívilnandi sjónarmið í huga. Endanleg útfærsla hefur ekki verið kynnt en tillögurnar eru í smíðum. Rætt hefur verið um að hraðpróf geti þar spilað stórt hlutverk.
„Vægari úrræði eins og sjálfpróf og/eða skyndipróf á að nota framar meira íþyngjandi úrræðum á borð við sóttkví ef það er hægt. Það virðist gefa góða raun annars staðar og á að vera forgangsmál á þessum tímapunkti,“ segir Bjarni.
Í vikunni var greint frá nýju minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis um framtíðarfyrirkomulag sóttvarna á Íslandi . Þar leggur Þórólfur til að 200 manna samkomubann og eins metra regla muni gilda næstu mánuðina hið minnsta, og að innanlandsaðgerðum verði ekki aflétt á meðan Covid-19 geisar enn í heiminum.
Bjarni segir hins vegar að ótímabært sé að ræða langtímatakmarkanir innanlands, og vísar þar til að mynda til úrræða á borð við hraðprófa.
„Það er ótímabært að ræða langtíma takmarkanir innanlands. Ekki síst þegar við erum ekki byrjuð að nýta úrræði á borð við þessi. En það er fyrir bestu að horfast í augu við það mat að það geti tekið langan tíma að losna við þessa óværu fyrir fullt og allt. Verkefnið er þá að geta lifað með því ástandi.“