Ljóst er að Grettir varð fyrir bíl, en fjölskyldan fær líklega aldrei að vita hvort það hafi verið af mannavöldum eða ekki.
Sama kvöld og Grettir týndist sagði sjónarvottur nefnilega frá því að hann hefði talið sig sjá hóp ungra drengja fleygja ljósum ketti fyrir bíl með þeim afleiðingurinn að kötturinn kastaðist nokkra metra en virtist svo halda áfram leið sinni illa særður.
„Það var greinilega keyrt á hann en ég veit ekki meir. Hann hvarf á miðvikudaginn og kom síðan ekki heim,“ segir Ísey í samtali við Vísi.
Eins og íbúi í Kópavogi lýsti í Facebook-hópi í síðustu viku voru sjö unglingsstrákar að verki sama miðvikudagskvöld, þegar ketti var fleygt fyrir bíl á Nýbýlavegi við Ástún.
„Kötturinn lifði af en var greinilega laskaður og stökk yfir girðinguna í átt að Ástúni þegar strákarnir nálguðust hann aftur,“ sagði í lýsingunni. Í samtali við Vísi sagði sjónarvotturinn, Kristinn Ólafur Smárason, að í kjölfarið hefði kona hans hringt á lögregluna.

Grettir fannst dauður ofar á Nýbýlavegi en við Ástún, en Ísey segir að það geti stemmt að hann hafi ferðast slasaður frá slysstað og þangað sem hann síðan lagðist og lést.
„Maður vill ekki trúa svona upp á fólk,“ segir Ísey. „En við höfum bara verið að syrgja Gretti með börnunum okkar.“