Handbolti

Andri Már fær fjögurra ára samning hjá þýska liðinu Stuttgart

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Már Rúnarsson fær hér afhenta treyjuna sem maður leiksins í hópi liðsfélaga sinna í nítján ára landsliðinu
Andri Már Rúnarsson fær hér afhenta treyjuna sem maður leiksins í hópi liðsfélaga sinna í nítján ára landsliðinu HSÍ

Íslenski unglingalandsliðsmaðurinn Andri Már Rúnarsson hefur gert fjögurra ára samning við þýska handboltaliðið TVB Stuttgart.

Andri Már er aðeins átján ára gamall og er núna að spila með íslenska nítján ára landsliðinu á EM í Króatíu.

TVB Stuttgart tilkynnti í dag um nýja samninginn á heimasíðu sinni en þetta er samningur sem nær út júní 2025.

TVB Stuttgart er í þýsku Bundesligunni og endaði í fjórtánda sæti á síðustu leiktíð með 14 sigra og 20 töp í 38 leikjum. Með liðinu spilar einnig íslenski landsliðsmaðurinn Viggó Kristjánsson.

Andri var valinn maður leiksins þegar Ísland vann sigur á Serbum og tryggði sér sæti í milliriðli á mótinu.

Andri Már lék með Fram á síðustu leiktíð en þar áður var hann í Stjörnunni. Hann getur bæði leikið sem skytta og sem leikstjórnandi.

Hann er alinn upp að mestu í Þýskalandi þar sem faðir hans Rúnar Sigtryggsson þjálfaði lið EHF Aue og Balingen Weilstetten í mörg ár.

„Andri er einn besti leikstjórnandinn í Evrópu í sínum árgangi. Hann mun hjálpa okkur með að leysa af Egon Hanusz í miðjustöðunni. Við ætlum líka að gefa Andra tíma til að þróa sinn leik enn frekar,“ sagði Jürgen Schweikardt, framkvæmdastjóri TVB Stuttgart í viðtali á heimasíðu félagsins.

„Við erum nú með þrjá leikmenn á EM 19 ára í þeim Andra, Fynn og Nico og allir eru með langa samning hjá okkur,“ bætti hann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×