Skoðun

Uppbygging á íbúðarhúsnæði í Hafnarfirði – skipsbrot Sjálfstæðisflokksins

Friðþjófur Helgi Karlsson skrifar

Það er engin djörfung né skýr framtíðarsýn þegar kemur að uppbyggingu húsnæðis í Hafnarfirði undir stjórn núverandi meirihluta. Síðustu 7 ár hefur ládeyða og skortur á sóknarhug í skipulags- og byggingarmálum verið einkennandi á tíma meirihluta Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.

Lítil sem engin fjölgun hefur átt sér stað síðan 2016 

Alls staðar í nágrannasveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu að Seltjarnarnesi undanskyldu fjölgaði íbúum svo jafnvel skipti tugum prósenta á tímabilinu 2016 – 2021. Innan höfuðborgarsvæðisins er fjölgunin mest í Mosfellsbæ, eða 34,2%. Þar búa nú 12.880 manns. Raunar hefur ekkert sveitarfélag með fleiri en þúsund íbúa vaxið eins og Mosfellsbær á tímabilinu. Í Reykjavík búa 134.000 manns og hefur íbúum fjölgað um 9,1% á tímabilinu.

En í Hafnarfirði fjölgaði íbúum á þessu árabili um 3,8%! Það er ömurlegt að vita til þess að á 7 ára valdatímabili Sjálfstæðisflokksins hér í Hafnarfirði er þetta niðustaðan. Grútmáttlaus skipulagsstefna og framtaksleysi þeirra er hrópandi. Þeir hafa haft formennsku í Skipulags- og byggingarráði öll þessi ár. Þeirra er svo sannarlega ábyrgðin.

Lengi getur vont versnað! 

En lengi getur vont versnað. Nú er svo komið að bæjarbúum fækkaði á milli ára, frá árinu 2020 til ársins 2021. Í fyrsta skipti í marga áratugi. Fram kemur í nýjum tölum á vef Þjóðskrár að íbúum í Hafnarfirði hefur fækkað um 154 frá 1. desember síðastliðnum fram til 1. ágúst á þessu ári. Á sama tíma hefur íbúum Reykjavíkurborgar fjölgað um 981. Eins hefur íbúum í Kópavogi, Garðabæ og Mosfellsbæ einnig fjölgað um nokkur hundruð.

Allt öðrum að kenna! 

Sjálfstæðismenn hafa reynt að verja aðgerðarleysi sitt og fólksflótta úr bænum. Þeir sjá ekki eigið getuleysi í þessum málaflokki og kenna því öllu öðru um.

Meðal annars því að flutningslínur rafmagns hafi tafið uppbyggingu í Skarðshlíð, Hamranesi og jafnvel í Áslandi 4 og 5 sem er æði langsótt og ekkert annað en veikluleg tilraun til að tala sig frá eigin veikleikum í skipulagsmálum. Við áætlanir þeirra um þéttingu byggðar hafa þeir talað um það hversu illa skipulagslög hafa leikið þá og eins þykir þeim íbúalýðræði þvælast fyrir. Og svo auðvitað hefur minnihlutinn verið til trafala. Alltaf hreint með bölvað vesen og tefja fyrir öllu. Allt þetta dæmir sig sjálft og undirstrikar veikleika þeirra þegar kemur að stjórn skipulags- og byggingarmála í bænum. Það er ljóst og engum um að kenna öðrum en þeim sjálfum!

Grátleg staða er á ábyrgð þeirra! 

Það skyldi þau ekki vera að fleira komi til sem skýri fólksflótta úr Hafnarfirði. Forsvarsmenn núverandi meirihluta hafa reynt að tala bæinn upp en því miður hefur það verið mjóróma rödd. Ungt fólk flytur úr bænum í leit að betra samfélagi þar sem betur er stutt við t.d. barnafjölskyldur og þar sem húsnæði er til staðar sem hentar þeim og þeirra kröfum.

Ábyrgðin er á hendi meirihluta Sjálfstæðismanna og Framsóknar á grátlegri stöðu og fólksflótta úr bænum. Það er vonandi að kjósendur gefi meirihlutanum rauða spjaldið í næstu kosningum. Íbúar Hafnarfjarðar eiga svo miklu betra skilið.

Höfundur er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði




Skoðun

Sjá meira


×