Fótbolti

Sveinn sagður fara frá Spezia til Svíþjóðar

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sveinn Aron hefur átt erfitt með að festa sig í sessi í atvinnumennskunni eftir að hann yfirgaf Breiðablik 2018.
Sveinn Aron hefur átt erfitt með að festa sig í sessi í atvinnumennskunni eftir að hann yfirgaf Breiðablik 2018. Lars Ronbog / FrontZoneSport via Getty Images

Sveinn Aron Guðjohnsen er sagður á leið til Elfsborgar í Svíþjóð. Hann hefur ekki náð að festa sig í sessi hjá Spezia á Ítalíu.

Sveinn Aron gekk í raðir Spezia frá Breiðabliki sumarið 2018 en hefur ekki spilað mikinn fótbolta síðan. Hann lék átta leiki fyrir liðið í ítölsku B-deildinni 2018-19 en fór síðan á lán til Ravenna í C-deildinni þar sem hann skoraði eitt mark í ellefu leikjum.

Hann skoraði þá tvö mörk í 15 leikjum fyrir Spezia í B-deildinni tímabilið 2019-20. Á síðasta ári fór hann aftur á lán, þá til OB í Danmörku, en spilaði þar aðeins fimm leiki og skoraði eitt mark.

Nú virðist hann vera á leið frá ítalska félaginu, en greint er frá því á Twitter-síðu hlaðvarpsins Dr. Football að hann sé á leið til Elfsborgar í Svíþjóð.

Sveinn Aron er sonur Eiðs Smára Guðjohnsen, aðstoðarlandsliðsþjálfara Íslands, og lék sína fyrstu landsleiki í ár undir stjórn föður síns. Hann hefur leikið fjóra landsleiki fyrir Íslands hönd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×