Kórdrengir voru að spila sinn fyrsta leik síðan 15. júlí, en leikmenn liðsins hafa verið í sóttkví síðan að smit greindist innan þeirra raða.
Þeir höfðu aðeins leikið tólf leiki fyror kvöldið, þremur minna en bæði Vestri og Fjölnir sem voru í sætunum fyrir ofan þá. Þróttur var í fallsæti, því ellefta í deildinni, með tíu stig, tveimur á eftir Selfossi fyrir ofan þá.
Sjálfsmark Hreins Inga Örnólfssonar snemma leiks kom Kórdrengjum í forystu og 1-0 stóð í hálfleik. Leonard Sigurðsson kom þeim 2-0 yfir með marki ellefu mínútum fyrir leikslok, áður en Magnús Andri Ólafsson innsiglaði 3-0 sigur þeirra í uppbótartíma.
Kórdrengir eru eftir sigurinn með 25 stig í þriðja sæti deildarinnar, jafnir Vestra að stigum eftir sigur þeirra fyrr í kvöld. Kórdrengir hafa hins vegar leikið 13 leiki gegn 15 leikjum Vestra og þá eiga þeir einn leik inni á ÍBV sem er í öðru sæti. ÍBV er fjórum stigum á undan Kórdrengjum með 29 stig, og eiga þeir leik við botnlið Víkings frá Ólafsvík á morgun.
Þróttur er sem fyrr með tíu stig í ellefta sæti.