Tottenham þurfti að styrkja vörn sína eftir brottför Belgans Toby Alderweireld til Katar og hefur Romero verið orðaður við félagið í allt sumar. Gengið var frá kaupunum í dag og greinir breska ríkisútvarpið, BBC, frá því að félagið hafi borgað Atalanta 47 milljónir punda fyrir Argentínumanninn.
Hann er því næst dýrasti leikmaður í sögu félagsins, á eftir franska miðjumanninum Tanguy Ndombele sem var keyptur frá Lyon á tæpar 54 milljónir sumarið 2019.
We are delighted to announce the signing of @CutiRomero2 from Atalanta.
— Tottenham Hotspur (@SpursOfficial) August 6, 2021
Welcome to Spurs, Cuti!
Romero er annar leikmaðurinn sem Tottenham fær frá Atalanta í sumar, á eftir markverðinum Pierluigi Gollini, sem kom á láni frá ítalska félaginu. Þá kom kantmaðurinn ungi Bryan Gil einnig frá Sevilla.
Romero er 23 ára gamall og átti glimrandi tímabil í miðri vörn Atalanta sem lenti í þriðja sæti ítölsku A-deildarinnar á síðustu leiktíð. Hann vann sér inn sæti í landsliði Argentínu og var í lykilhlutverki er liðið fagnaði sigri í Suður-Ameríkukeppninni í sumar.
Atalanta hefur þegar fengið Tyrkjann Merih Demiral frá Juventus til að fylla skarð Romero hjá félaginu.