Filipe býr í Starenginu á Selfossi með konu sinni, Kristínu Þórisdóttur frá Hellu og dætrum þeirra en þær heita Eva Lind og Elín Ýr. Filipe gerði mikið af því sem barn og unglingur í Brasilíu að klifra upp í pálmatrén og ná sér þar í ávexti.
Eftir að fjölskyldan flutti á Íslands hefur Filipe alltaf saknað mikið pálmatrjánna en hann fann fljótt ráð við því, jú, hann sagaði meira og minna allar greinarnar af tveimur 12 metra háum grenitrjám í garði fjölskyldunnar og gerði þau þannig að sínum eigin pálmatrjám.
„Það er mikið af pálmatrjám í Brasilíu, sem ég sakna, ekki síst kókoshnetuvatnsins, það er ótrúlega gott. Nú er ég komin með mín eigin „pálmatré“ í garðinn minn til að vera nálægt Brasilíu og mömmu og pabba,“ segir Filipe.

Filipe klifrar nokkrum sinnum á dag berfættur upp í trén og skoðar útsýnið yfir Selfoss og ímyndar sér að hann sé þá staddur í Brasilíu.
„Þegar ég var lítill þá var venjulegt hjá krökkum að klifra upp í tré og ná í ávexti og borða strax og hlaupa frá hundum og klifra upp í tré,“ bætir hann við,
Filipe er líka liðtækur á trampólíninu með dóttur sinn og hann stundar líka brimbretti í köldum sjónum við Íslandsstrendur. Hann segir frábært að eiga heima á Íslandi. En hvað er best við landið?
„Konan mín og dætur mínar“.
En er Filipe tilbúin að breyta fleiri grenitrjám á Selfossi í pálmatré ef fólk biður hann um það?
„Já, ekkert mál, bara að senda mér skilaboð og við tölum saman,“ segir hann og hlær.
