Þetta kemur fram í Facebook-færslu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands. Hraun hefur ekki lekið niður í Nátthaga í meira en mánuð og fylgist hópurinn nú grannt með því hvort breyting verði þar á næstu klukkustundir.
„Óróinn hefur verið á hægri uppleið síðustu sólarhringa og hefur glóð sést af og til í gígnum. Fyrst núna hefur þó virknin verið nægilega kraftmikil til að mynda hraunstreymi út úr gígnum. Samhliða þessu sjást gusur skvettast innan í gígnum á ný,“ segir í færslunni.
Hraunstraumurinn sést nokkuð vel á vefmyndavél Vísis en fylgjast má með útsendingunni í spilaranum hér fyrir neðan og á stöðinni Stöð 2 Vísir á myndlyklum Símans og Vodafone.