Konráð Guðjónsson, hagfræðingur og aðstoðarframkvæmdarstjóri Viðskiptaráðs ræddi málið í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Reiknivélin er sett upp í Grid, íslenskum hugbúnaði sem virkar eins og Excel-skjal sem margir geta unnið í á sama tíma.
Konráð segir að hver og einn geti stillt upp sínum forsendum til að svara spurningunni: „Hvort hentar mér betur, kaup á hjólhýsi eða einfaldlega gisting á hóteli?“
Kostirnir eru mjög ólíkir að sögn Konráðs. Þegar hjólhýsi er keypt fellur nánast allur kostnaður til á fyrsta degi en kostnaður við gistingu á hóteli safnast frekar upp jafnt og þétt yfir mörg ár.
Konráð segir að þó kostnaður sé mikilvægur þáttur í ákvarðanatökunni sé mikilvægt að hafa líka í huga hvort maður vilji frekar gista í hjólhýsi eða á hóteli.
Reiknivélin er mjög ítarleg, til að mynda tekur hún tillit til vaxtagreiðslna af lánum og verðbólgu.
Reiknivélin hefur verið mikið notuð frá því að hún fór í loftið að sögn Konráðs. Hann hvetur fólk til að setja upp reiknivélar í Grid um hvaðeina sem bera þarf saman.
Tæplega áttatíu prósent aukning í innflutningi ferðavagna
Á vefsíðu Viðskiptaráðs segir að innflutningur nýrra hjólhýsa, fellihýsa, tjaldvagna og þess háttar búnaðar hafi verið 79 prósent meiri fyrstu fimm mánuði ársins heldur en á sama tíma 2019. Síðustu tólf mánuði nam innflutningurinn samtals rúmum tveimur milljörðum króna.