Á félagsfundi Pírata í gærkvöldi lögðu oddvitar framboðslista Pírata fyrir næstu kosningar fram erindisbréf í samræmi við lög flokksins sem veitir Halldóru umboðið.
Halldóra sagði í samtali við Morgunblaðið að enginn hafi verið mótfallinn erindisbréfinu sem fari nú í rafrænt kosningakerfi Pírata.
„Ef grasrótin samþykkir þá verður þetta borið undir þingflokkinn og framkvæmdastjórn og ef þetta er samþykkt þar þá er ég komin með umboð,“ hefur Morgunblaðið eftir Halldóru.
Á sunnudag hófst staðfestingarkosning um kosningarstefnuskrá Pírata í kosningakerfi flokksins en undirbúningur hennar hófst á flokksþingi í febrúar.