Anníe Mist kom til baka og tryggði sér sæti á heimsleikunum og verður nú með í ellefta sinn á leikunum á síðustu þrettán árum. Það er þegar orðið mikið afrek hjá henni að vinna sér þátttökurétt meðal hraustustu CrossFit kvenna heims þar sem aðeins fjörutíu komust alla leið á leikana.
Anníe Mist sagði aðeins frá hugarástandi sínu kvöldið fyrir keppnina en fyrsta greinin fer fram í vatninu við Madison borg í dag eitthvað sem var mjög erfitt fyrir Anníe að undirbúa sig fyrir í kuldanum á Íslandi.
„Síðustu tólf mánuðir hafa reynt meira á mig en nokkuð annað tímabil í mínu lífi. Á sama tíma hafa þetta einnig verið, án nokkurs vafa, tólf bestu mánuðirnir í mínu lífi,“ skrifaði Anníe Mist á Instagram síðu sína.
„Ég er að byrja mína ellefu heimsleika á þrettán tímabilum. Ég missti af leikunum 2013 vegna meiðsla og af leikunum 2020 af því að ég var ófrísk. Ég vona það að í lok þessarar helgar þá muni 2014 (silfur) og 2021 (?) standa upp úr sem þau ár sem ég er stoltust af,“ skrifaði Anníe Mist.
Anníe nefnir þar hvorki árið 2011 né árið 2012 þegar hún varð heimsmeistari heldur árið 2014 þegar hún kom til baka eftir mjög erfið bakmeiðsli og náði öðru sætinu á heimsleikunum.
„Það er auðvelt að brosa þegar leiðin er greið en sigrarnir sem skila manni mestu eru þeir þar sem þú þarft að berjast fyrir öllu þínu,“ skrifaði Anníe.
„Ég er að gera þetta fyrir Freyju og mig sjálfa. Ég ætla mér að sanna það að þú getir allt sem þú ætlar þér. Leggja á þig vinnuna og vera stolt af þér og þínu. 3…2…1… og af stað. Gerum þetta,“ skrifaði Anníe Mist.