Bjarni skal ekki segja um það hvort það sé tilhneiging meðal fólks á vinstri væng að hika frekar við að aflétta samkomutakmörkunum en aðrir. Í samtali við fréttastofu segist ekki skynja grundvallarmun á sjónarmiðum flokka um þessi efni innan ríkisstjórnarinnar.
Sífellt háværari raddir heyrast, meðal annars á samfélagsmiðlum, sem kalla eftir því að látið sé af eins takmarkandi sóttvarnarráðstöfunum á meðan ekki blasi við að mikil áhætta sé á alvarlegum veikindum.
„Ég skil það vel að venjulegir Íslendingar eru bara að kalla eftir upplýsingum um sína stöðu. Þarf ég að hafa áhyggjur af minni heilsu ef ég er bólusettur? Þarf ég að fá viðbótarbólusetningu, hvernig þarf maður að haga sér gagnvart þeim sem eru í viðkvæmri stöðu, og svo framvegis. Þarna er ekki nema eðlilegt að allir spyrji sig í ljósi þess að þetta er að þróast með öðrum hætti en við höfðum gert ráð fyrir og sóttvarnayfirvöld,“ segir Bjarni.
Bjarni segir að ef alvarleg veikindi reynist mjög fátíð með þeim bólusetningum sem komnar eru, séu Íslendingar að ná árangri sem eigi að gleðjast yfir og nota til að skapa mikið frelsi innanlands.
„Ég ætla ekki að fullyrða neitt um framtíðina en það sem mér finnst langlíklegast er að hlutirnir færist smám saman aftur í eðlilegt horf,“ segir Bjarni í viðtali sem má sjá í heild hér að ofan.