Væntanlegt er að að loknum ríkisstjórnarfundi muni liggja fyrir til hvaða aðgerða verður gripið í ljósi versnandi stöðu kórónuveirufaraldurs hér á landi. Ríkisstjórnarfundir hefjast vanalega klukkan hálf tíu en misjafnt er hvenær þeim lýkur, yfirleitt þó á milli klukkan ellefu og tólf.
Þegar fréttastofa náði tali af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um klukkan eitt sagði hún að ríkisstjórnin hefði enn ekki fengið minnisblað frá Þórólfi en hún reiknaði með að hann skilaði því í dag. Þegar það bærist yrði boðað til ríkisstjórnarfundar til að fara yfir tillögurnar, að öllum líkindum á morgun og þá að öllum líkindum ekki fyrr en eftir hádegi.
Frá mánaðamótum hafa 236 greinst með Covid-19 innanlands, þar af 213 síðustu vikuna. Þórólfur sagði á upplýsingafundi almannavarna í morgun að ljóst sé að faraldurinn sé í veldisvexti. 78 greindust smitaðir af veirunni innanlands í gær, þar af 59 utan sóttkvíar.
Þórólfur sagðist á fundinum ekki vilja fara yfir hvað fælist í tillögunum. Hann hafi þó lagt til aðgerðir sem hafi reynst vel fyrr í faraldrinum.
„Mér finnst það ekki viðeigandi en við höfum verið að grípa til svipaðra ráðstafna fyrr í faraldrinum sem hafa nýst okkur vel. Ég held að við þurfum að nýta okkur það áfram,“ sagði Þórólfur í samtali við fréttastofu eftir fundinn.