Í fyrstu stóð að einungis erlendir ferðamenn þyrftu að sýna neikvætt próf. Það var ekki rétt. Tilmælin ná líka yfir Íslendinga sem eru að koma erlendis frá.
Breytingarnar taka gildi eftir viku.
Þetta tilkynnti Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, eftir ríkisstjórnarfund í stjórnarráðinu í dag þar sem tillögur Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, voru til umræðu.
Katrín lagði minnisblaðið fram fyrir hönd Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, sem var ekki stödd á fundinum. Hún sagði að breytingarnar muni þarfnast undirbúnings og því taki þær gildi eftir viku.
Bólusett fólk munu þurfa að framvísa neikvæðu PCR-prófi eða hraðprófi.
Þá verður mælst til þess að þau sem eru með tengslanet hér á landi, eins og búsettir Íslendingar, fari í skimun innan sólarhrings frá því að koma til landsins.
Þórólfur lagði til að Íslendingar yrðu skyldugir til að fara í sýnatöku. Samkvæmt Mbl þótti ráðherrum það ekki standast jafnræðisreglu.
„Hugsunin er þá að draga úr áhættunni. Við erum sem betur fer ekki að sjá alvarleg veikindi en við erum að sjá töluverða fjölgun smita, í hópi bólusettra, og við erum að horfa til þess að þetta eru tiltölulega mildar ráðstafanir til að draga úr áhættu.
Ekki skiptir máli frá hvaða landi viðkomandi eru að koma og ástandinu þar.