Í gær var sunginn brekkusöngur á Ísafirði en í kvöld er sjálft Ögurballið. Unnendur sveitaballa hafa beðið í ofvæni eftir ballinu en í fyrra þurfti að aflýsa því sökum faraldurs Covid-19.
Rómantíkin, gleðin og sveitaballasjarminn sem svífur yfir Ögurballinu er löngu orðin landsfrægt, dansgólfið dúar þegar það fyllist og rabbarbaragrautur með rjóma sem er borinn fram fyrir ballgesti í danspásum. Ein af hefðunum sem Ögursystkinin halda fast í er hinn margumtaliði rabbarbaragrautur með rjóma. Þetta segir í facebookviðburði ballsins.
Una Hildardóttir, forseti Landssambands ungmennafélaga, heldur titlinum andlit Ögurballsins frá því í fyrra, enda fór ballið ekki fram þá.
Metþátttaka í Laugavegshlaupinu
Utanvegahlaupið sem hlaupið er ár hvert á Laugaveginum var haldið í 25. skipti í dag. 550 keppendur lögðu af stað frá Landmannalaugum klukkan níu í morgun. Aldrei hafa fleiri tekið þátt.
Það voru þau Andrew Douglas frá Bretlandi og Andrea Kolbeinsdóttir sem urðu hlutskörpust í ár. Andrea tók þátt í hlaupinu í fyrsta skiptið og gerði sér lítið fyrir og setti brautarmet í kvennaflokki.
Sápubolti í Ólafsfirði
Ólafsfirðingar og gestir skemmtu sér konunglega um helgina þegar hið árlega sápuboltamót fór fram í blíðskaparveðri. 21 lið í fimm riðlum tóku þátt í mótinu. Úrslitin réðust í dag eftir hádramatíska vítaspyrnukeppni. Það var liðið Ha? Why? sem stóð uppi sem sigurvegar Sápuboltamótsins 2021
