Á þriðja tug hælisleitenda var boðaður á fund Hafnarfjarðardeilda Útlendingastofnunar í morgun og mætti hluti þeirra á staðinn í morgun samkvæmt upplýsingum fréttastofu.
Greinilegt var að nokkur skjálfti var í fólki fyrir fundinn eftir að tveir palestínskir flóttamenn voru handteknir í móttöku Útlendingastofnunar á þriðjudaginn, fluttir af staðnum með valdi í þeim tilgangi að senda þá úr landi.
Þá vissu þeir sem fréttastofa ræddi við fyrir fundinn ekki hvert tilefni hans var.
Eftir fundinn náði fréttastofa tali af hópi Kúrda sem hafa dvalið hér á landi í þrjú og hálft til fjögur ár.
Meðal þeirra var Raman Abdulsamad sem hefur verið hælisleitandi hér á landi í þrjú og hálft ár.
„Þeir buðu okkur 200 evrur ef við samþykktum að fara og 3.000 þegar við kæmum til Íraska hluta Kúrdistan,“ segir Raman.
Raman segir að hópurinn ætli ekki að taka þessu tilboði. Þeir þurfi ekki peninga heldur vilji öðlast nýtt líf því þeir óttast um öryggi sitt í Kúrdistan.
„Starfsfólk Útlendingastofnunar bað okkur um að hugsa málið en þegar við neituðum tilboðinu sögðu þeir „dveljið þá hér“. Ég vona að það finnist einhverar lausnir fyrir okkur því við viljum eiga líf hér á landi enda búnir að dvelja hér í 3-4 ár,“ segir Raman.
Raman var þó ekki bjartsýnn á að framhaldið.
„Ég er óttasleginn um framhaldið eftir að tveimur flóttamönnum var vísað með valdi úr landi, ég er eiginlega í áfalli,“ segir Raman.
Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun var fólki sem hefur verið synjað um dvalarleyfi kallað á fund í dag til að kynna fyrir því hækkuna ferðastyrk fari það úr landi en reglugerð þess efnis var uppfærð fyrir nokkrum dögum. Ef fólk neiti að fara úr landi þurfi að flytja það af landi brott með valdi. Stjórnvöld í heimalandi viðkomandi þurfa hins vegar að samþykkja að taka á móti fólkinu sé það flutt með valdi heim á ný. Írösk stjórnvöld hafi neitað að taka við Kúrdum á flótta.
Hér að neðan má sjá viðtalið við Raman í heild sinni.
Fréttin hefur verið uppfærð.