Mönnunum tveimur var sagt upp í síðustu viku en þeir hafa verið til rannsóknar hjá lögreglu vegna gruns um að hafa beitt unga konu kynferðisofbeldi eftir skemmtun starfsmanna í júní á síðasta ári. Konan er tvítugur nemandi í flugumferðarstjórn og mennirnir tveir reynslumiklir flugumferðarstjórar á fimmtugsaldri.
Rannsókn lögreglu er lokið og var málið sent til héraðssaksóknara, þar sem það var fellt niður vegna skorts á sönnunargögnum. Sú niðurstaða var hins vegar kærð og er málið nú á borði ríkissaksóknara.
Isavia staðfestir í skriflegu svari til fréttastofu að mönnunum tveimur hafi verið sagt upp. Þá segir að þeir hafi í fyrstu verið færðir til í starfi en í ljósi alvarleika málsins hafi þeim verið sagt upp störfum.
Heimildir fréttastofu herma að atvikið hafi átt sér stað í kjölfar bjórkvölds hjá stéttarfélagi flugumferðarstjóra í júní í fyrra og að konan hafi leitað á bráðamóttöku Landspítalans í beinu framhaldi.
Starfsmannafundir hafa verið haldnir í vikunni vegna málsins og fleiri fundir eru á dagskrá hjá Isavia ANS í dag og á morgun. Isavia segir að hlutaðeigandi hafi verið boðin sálfræðiaðstoð.