Neytendur

Nýja vín­búðin fer í sam­­keppni við ÁTVR

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Sverrir Einar Eiríksson hefur vakið athygli fyrir ýmis viðskipti undanfarin ár.
Sverrir Einar Eiríksson hefur vakið athygli fyrir ýmis viðskipti undanfarin ár. Vísir

Á­fengis- og tóbaks­verslun ríkisins er komin með nýjan sam­keppnis­aðila, sem stílar inn á ís­lenskan markað. Net­verslunin Nýja vín­búðin opnaði fyrir um tveimur vikum en það er við­skipta­maðurinn Sverrir Einar Ei­ríks­son sem rekur hana. Sverrir á litríka viðskiptasögu að baki en hann hefur meðal annars keypt gull og veitt 95 prósenta fasteignalán.

Fyrir­tækið er breskt þó nafn þess sé ís­lenskt og það stíli inn á ís­lenskan markað. Og það er varla hægt að skilja nafnið öðru­vísi en sem kald­hæðnis­legt skeyti til ÁTVR, sem rekur verslanir sínar undir heitinu „Vín­búðin“. Sverrir Einar segir að Nýja vín­búðin hafi ein­fald­lega verið besta nafnið sem honum datt í hug á á­fengis­verslun sína.

Það vakti nokkra at­hygli á síðustu vikum þegar Arnar Sigurðar­son hóf svipaðan rekstur með net­verslun sinni sante.is. Hún hlaut góðar við­tökur neyt­enda en ekki eins góðar frá ÁTVR sem vill fá lög­bann á vef­verslanir með á­fengi.

Sam­kvæmt lögum í dag hefur ríkið einka­rétt á sölu með á­fengi á Ís­landi en þó má fólk panta sér vín frá út­löndum, frá út­lenskum fyrir­tækjum. Ís­lenskir vín­kaup­menn hafa lengi gagn­rýnt þetta fyrir­komu­lag.

Arnar Sigurðs­son opnaði síðan síðuna sante.is, sem hann rekur sem franskt fyrir­tæki. Hann er þó með lager á Ís­landi þaðan sem hann sendir vín sem keypt er af vef­síðunni.

Óljóst hvort starfsemi sé á Íslandi

Sverrir Einar og Nýja vín­búðin hafa fylgt for­dæmi Arnars og selja vínið sem breskt fyrir­tæki. Sverrir vill þó ekki svara því hvort hann sé með lager á Ís­landi: „Við erum með vöru­hús í Evrópu sem við sendum frá.“

Og vöru­hús á Ís­landi líka?

„Eins og ég segi, þá erum við með vöru­hús í Evrópu sem við sendum frá.“

Hann telur sig í full­komnum rétti til að selja vín á ís­lenskum markaði. „Ég sé ekki hvernig ein­hver fær það út að þetta sé ó­lög­legt. Þetta er bresk net­verslun og það er pantað í gegn um hana. Á­fengið er síðan meira og minna allt sent frá út­löndum,“ segir hann.

„Af hverju á það að vera í lagi að það sé hægt að panta bara til dæmis frá fyrir­tæki í Pól­landi ef að eig­andinn er pólskur en ef eig­andinn er ís­lenskur þá er það orðið eitt­hvað undar­legt og bannað.“

Sverrir hefur áður komist í fréttir fyrir viðskipti sín, meðal annars fyrir kaup á gulli, viðskipti með demanta og rekstur Þrastarlundar í Grímsnesi. Þá vakti athygli þegar hann hóf að bjóða 95% fasteignalán. Lesa má um viðskiptasögu Sverris í fréttinni að neðan.

100 milljónir í vasa neytenda

Nýja vín­búðin segist bjóða upp á 10 til 30 prósent lægra verð en ÁTVR. Bjórinn Stella Artois í gleri er til dæmis 30 prósent ó­dýrari; flaskan kostar 389 í ríkinu en 272 krónur í Nýju vín­búðinni.

„Það er alla­vega tíu prósent af öllum vörum sem ÁTVR selur. Það er standardinn,“ segir Sverrir. Ofan á það bætist reyndar sendingar­kostnaður, sem getur verið mis­jafn eftir því hvort fólk vilji láta senda sér varninginn beint heim að dyrum eða sækja hann í gegn um Dropp.

„Þetta er því­lík kjara­bót fyrir Ís­lendinga. Þetta skilar sér beint í vasa þeirra. Við stefnum á að selja fyrir milljarð á fyrstu 12 mánuðunum og það eru þá að lág­marki 100 milljón króna sparnaður sem rennur beint í vasa neyt­enda,“ segir Sverrir. Út­reikningarnir miðast vita­skuld við að allar vörur hans séu að minnsta kosti tíu prósent ó­dýrari en hjá ÁTVR en hér virðist hann ekki taka sendingar­kostnað með í jöfnuna.

Hann segist þó full­viss um fólk komi betur út úr við­skiptum við Nýju vín­búðina, þó sendingar­kostnaður bætist ofan á verðin, en við ÁTVR.


Tengdar fréttir

ÁTVR kvartar formlega undan vefverslunum

ÁTVR hefur tilkynnt sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og á Vesturlandi um meint brot Bjórlands, Brugghússins Steðja og Sante ehf. Áfengisverslunin telur þessa aðila hafa gerst brotlega við áfengislög.

„Vín­á­huga­maður“ skrifar níð­grein

Í bók sinni 1984 skrifar George Orwell boðskap einræðisherrans þess efnis að í fáfræðinni sé styrkur falinn. Jón Páll Haraldsson sem titlar sig „vínáhugamann” skrifar sérkennilega grein á vef Vísis, hvar hann fyrstur vínáhugamanna mærir einokunarverslanir ríkisins svo vitað sé.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×