„Allur bærinn brennur,“ segir Jan Polderman, bæjarstjóri Lytton í Bresku-Kólumbíu við kanadísku CBC-sjónvarpsstöðina.
Eldurinn breiddist hratt út og segir Polderman aðeins fimmtán mínútur hafa liðið frá því að íbúar sáu fyrstu merki um reyk þar til eldurinn umlék bæinn. Veðurfræðingur CBC segir að heitar, þurrar og vindasamar aðstæður á svæðinu þýði að eldurinn breiðist út á 10-20 kílómetra hraða á klukkustund.
Íbúar hafa leitað skjóls í nærliggjandi þorpum og bæjum. Síðar í gærkvöldi var ábúendum á 87 landareignum norður af Lytton skipað að forða sér vegna gróðurelda sem brenna á svæðinu. Slökkviliðsmenn glímdu fyrir við að minnsta kosti tvo aðra gróðurelda áður en eldurinn í Lytton kviknaði.
Fordæmalaus hitabylgja gengur nú yfir vesturströnd Kanada og norðvesturströnd Bandaríkjanna. Á sumum stöðum í Bresku-Kólumbíu hafa gömul hitamet verið bætt með meira en tíu gráðu mun.
Í Lytton var met yfir mesta hita í Kanada frá upphafi slegið í þrisvar á jafnmörgum dögum í vikunni. Á þriðjudag mældist hitinn 49,6°C.
Satellite view of British Columbia interior confirms that the severe thunderstorms occurring at present are indeed pyro-convective events: wildfire-generated severe storms, complete with abundant lightning and strong winds. Precipitation may be minimal to non-existent... #BCwx pic.twitter.com/cLk90WfLZO
— Daniel Swain (@Weather_West) July 1, 2021
Á fimmta hundrað óvæntra dauðsfalla
Hitabylgjan er enn ekki gengin yfir en talið er að hún hafi þegar valdið hundruðum dauðsfalla í Kanada og Bandaríkjunum til þessa. Í Oregon-ríki í Bandaríkjunum tengja heilbrigðisyfirvöld dauða sextíu manna við hitann.
Í Bresku-Kólumbíu segir yfirdánardómstjóri að tilkynnt hafi verið um að minnsta kosti 486 óvænt og skyndileg dauðsföll frá síðasta föstudegi og fram á gærdaginn. Vanalega látast þar um 165 manns á fimm daga tímabili, að sögn AP-fréttastofunnar.
Svo mikill hiti er óvanalegur á þessum slóðum og því eru margir íbúar ekki svo hepppnir að hafa loftkælingu.
„Vancouver hefur aldrei upplifað hita af þessu tagi og því miður deyja nú tugir manna vegna þess,“ sagði Steve Addison, aðstoðarvarðstjóri hjá lögreglunni í Vancouver í Bresku-Kólumbíu.