Um áramótin fluttust skimanir fyrir leghálskrabbameini frá Krabbameinsfélagi Íslands til Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Óhætt er að segja að síðan þá hafi málin verið í miklum ólestri en bið eftir niðurstöðu úr leghálssýnatöku er þrír mánuði.
Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, segir að á þriðja tug kvartana hafi borist umboðsmanni vegna málsins.
Telja að brotið hafi verið á sér
„Frá þá bæði konum sem telja að brotin hafi verið á sér réttur og þeirra öryggi jafnvel ógnað og síðan þá ábendingar sem eru almennar eðlis og þeirra á meðal er ábending frá félagi kvensjúkdómalækna,“ segir Skúli.
Málið hafi verið til skoðunar hjá heilbrigðisráðherra og Alþingi. Skúli lítur svo á að vandinn hafi verið viðurkenndur og að verið sé að bregðast við honum.
Umboðsmaður Alþingis fylgist þó áfram vel með gangi mála. Í morgun hafi hann átt fund með Ernu Bjarnadóttur forsvarsmanni Facebook-hópsins Aðför að heilsu kvenna og Gunnari Bjarna Ragnarssyni formanni félags krabbameinslækna.
„Að mínu mati er þessi fundur til marks um það að umboðsmaður tekur þetta mál alvarlega. Við höfum verið að fylgjast með málinu og erum að því og munum gera það áfram,“ segir Skúli.
Heilsa kvenna í húfi
Ef vandinn verði áfram til staðar og ekki brugðist við af hálfu stjórnvalda hafi umboðsmaður úrræði til að bregðast við með.
„Staðan er þannig að mínu mati að það er verið að vinna að lausn vandans og þá fylgjumst við með því í hæfilegri fjarlægð og gefum stjórnvöldum svigrúm til að vinna sína vinnu.“
Málið sé grafalvarlegt.
„Þetta er grafalvarlegt mál. Hér er heilsa kvenna í húfi og þetta er mikill fjöldi sýna sem við erum að tala um þannig auðvitað er ekki annað hægt að segja en að þetta sé grafalvarlegt mál,“ segir Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis.