Skoðun

Frjáls­lynt fólk í frá­bærum flokki

Arnar Páll Guðmundsson skrifar

„Arnar af hverju ert þú í pólitík?“ Þetta er spurning sem ég fæ oft þegar fólk heyrir að ég starfi með Viðreisn og gegni trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Í framhaldinu fylgir oft spurningin um hvort pólitík sé ekki bara ákveðin leið til þess að koma sínum málum á framfæri og skapa svigrúm fyrir persónulegan ávinning?

Ég lít ekki svo á og í Viðreisn hef ég aldrei orðið var við slík viðhorf. Í Viðreisn eru allir jafnir og allir hafa sama rétt til að tjá sig. Við höfum skoðanir og við tökumst á, en á endanum er tekin sameiginleg ákvörðun út frá rökum enda lítum við svo á að enginn einn einstaklingur sé stærri en sú liðsheild sem hann tilheyrir.

Það vita það kannski ekki margir en eitt af fyrstu verkum okkar í Viðreisn var að setja fram reglur um orðfæri. Þannig hefur góð og vönduð orðræða ávallt verið hluti af grunngildum okkar en meginstefið þar er að fara aldrei í manninn heldur málefnin. Til þess að ná árangri er mikilvægt að temja sér gott orðfæri, með virðingu fyrir fólki í fyrirrúmi.

Í Viðreisn lítum við ekki á áskoranir sem ógn heldur tækifæri og tökum á móti þeim með opnum huga. Haustið 2017 fengum við stóra áskorun í fangið þegar boðað var óvænt til kosninga. Á sama tíma var fylgi flokksins í sögulegu lágmarki. Á þessum tímapunkti tók Viðreisn áhættu þar sem skipt var um forystu í flokknum. Allir lögðust á eitt til að tryggja að flokkurinn ætti áfram fulltrúa á þingi. Áhættan var þess virði og Viðreisn var siglt í örugga höfn.

Þegar ég lít til baka er ég mjög ánægður með að hafa gengið til liðs við Viðreisn á sínum tíma og fundið hugsjónum mínum um betra samfélag farveg þar. Það sem hefur heillað mig mest við flokkinn er að hann er ungur og iðar af lífi og berst fyrir frjálslyndi og jafnrétti. Fyrir mig eru það forréttindi að tilheyra slíkum hópi. Þegar ég er spurður að því hvaða fólk sé í Viðreisn þá svara ég ávallt með stolti að við séum einfaldlega frjálslynt fólk í frábærum flokki, sem setur almannahagsmuni framar sérhagsmunum.

Höfundur skipar 7. sæti á lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×